STEFNUSKJAL HÚMANISTA

IV. FRÁ NÁTTÚRULEGUM HÚMANISMA TIL MEÐVITAÐS HÚMANISMA

Húmanisminn á að virkja grasrót samfélagsins, með þátttöku í lífi fólks og störfum, breyta einföldum mótmælaaðgerðum í meðvitað afl, sem beinist að breytingum á sjálfu efnahagsskipulaginu.

Að því er snertir þá er berjast fyrir málstaðnum innan stéttarfélaga og pólitískra framfaraflokka þá mun barátta þeirra eflast og verða heildstæðari eftir því sem þeim tekst að hafa áhrif á leiðtoga samtaka sinna og fá félaga sína til liðs við stefnu sem setur grundvallarmarkmið húmanismana í fyrsta sæti, ofar öllum skammtímamarkmiðum.

Hin fjölmenna stétt námsmanna og kennara ber að öllu jöfnu næmt skynbragð á óréttlæti og þegar kerfiskreppan snertir hana, mun hún koma á framfæri vilja sínum til breytinga. Fjölmiðlafólk, sem er í tengslum við harmleiki hversdagslífsins, er einnig í aðstöðu til að starfa í samræmi við stefnu húmanista á saman hátt og ýmsir menntamenn sem sýna í verki andstöðu sína við kröfur ómanneskjulegs kerfis.

Sé horft til staðreynda mannlegra þjáninga er fjölmargt hægt að gera og ýmis viðfangsefni tiltæk, sem bjóða fólki að takast á hendur óeigingjarnt starf í þágu hinna útskúfuðu og þeirra sem er mismunað. Samtök, hópar sjálfboðaliða og stór hluti almennings er stundum virkjaður til jákvæðs framlags. Án efa er slíkt framlag til þess fallið að afhjúpa vandamálin og varpa ljósi á þau. Á hinn bóginn stefna þessir hópar ekki að því með störfum sínum að breyta þeirri samfélagsskipan sem orsakaði vandamálin. Aðgerðir þeirra sverja sig meira í ætt við líknarstarfsemi en meðvitaðan húmanisma. Þó felast í þessari viðleitni til góðra verka aðgerðir og andóf, sem hægt væri að efla og beita af meiri ákveðni og í víðara samhengi.


V.HERBÚÐIR ANDHÚMANISTA

Þau öfl sem fjármagnsveldið hefur yfir að ráða herða enn hálstakið á þjóðum heims. Sundurleit öfl leysast úr læðingi og sækja sér styrk í ríkjandi öryggisleysi, sem þau eru lagin við að nýta sér, og beina andúð að þeim er ekkert hafa til saka unnið. Grundvöllur þessarar nýfasísku stefnu er djúpstæð afneitun mannlegra gilda. Vistverndarstefna á villigötum tekur upp hanskann fyrir náttúruna á kostnað mannsins. Samkvæmt þessari stefnu eru vistfræðileg slys ekki slæm vegna þess að þau stofni mannkyni í hættu, heldur vegna þess að maðurinn hafi gerst tilræðismaður við náttúruna. Sumar þessara kenninga telja manninn sjálfan mengaðan og því sé hann mengunarvaldur í náttúrunni. Þessir aðilar líta svo á að betra hefði verið ef læknavísindunum hefði mistekist að ráða bug á fjölda sjúkdóma og lengja meðalævi mannsins. „Jörðin númer eitt !!“ hrópa þeir sefasýkislega svo að minnir á vígorð nasistanna forðum. Þá er stutt í mismunun gagnvart mengandi menningu eða gagnvart útlendingum, sem taldir eru menga þjóðlífið. Þessar stefnur flokkast undir andhúmanisma því þær grundvallast á mannfyrirlitningu. Forvígismenn þeirra fyrirlíta sjálfa sig og endurspegla þannig þær niðurrifs- og sjálfsvígstilhneigingar, sem nú eru svo mjög í tísku.

Verulegur hluti skynugs fólks styður þó einnig umhverfisvernd, vegna þess að það gerir sér ljóst hve alvarleg vandamál er hér um að ræða. Ef vistverndarmenn tækju upp stefnu húmanismans, yrði baráttunni beint gegn þeim sem valdir eru að hörmungunum, það er að segja gegn fjármagnsveldinu og víðfeðmri keðju eyðileggjandi iðnrekstrar og atvinnustarfsemi, sem er nátengd hergagnaframleiðslubákninu. Áður en menn fara að hafa áhyggjur af selunum, ættu þeir snúa sér að hungrinu í heiminum, offjölgun mannkyns, barnadauða, sjúkdómum, skorti á hreinlætisaðstöðu og húsnæði í mörgum heimshlutum. Þeir ættu að vinna gegn atvinnuleysi, arðráni, kynþáttahatri, mismunun og skorti á umburðarlyndi í tæknilega þróuðum heimi þar sem menn eru að setja vistkerfið úr skorðum í nafni glórulauss hagvaxtar.

Það er óþarfi að fjölyrða um hægri öflin sem pólitískt verkfæri andhúmanismans. Þar hefur varmennskan gengið svo langt að hægri menn kynna sig jafnvel sem fulltrúa „húmanisma“. Á hægri vængnum má einnig nefna slóttuga klerka, sem þykjast byggja kenningar sínar á svokölluðum „guðfræðilegum húmanisma“. Þessi tegund manna stóð forðum að trúarbragðastyrjöldum og rannsóknarrétti og tortímdi höfundum vestræns húmanisma á fyrri öldum. Nú eigna klerkarnir sér dyggðir fórnarlamba sinna og þykjast þess jafnvel umkomnir að „fyrirgefa frávik“ húmanista fyrri tíma. Svo óprúttnir eru andhúmanistar við að eigna sér orð þeirra að þeir skirrast ekki við að kalla sjálfa sig húmanista.

Andhúmanistar hafa aragrúa aðferða, tækja og tjáningarforma á takteinum. Þó ætti nánari útlistun á áróðursbrögðum þeirra að auka líkurnar á að ýmsir góðviljaðir og auðtrúa húmanistar endurskoði afstöðu sína og tilgang félagslegs starfs síns.


VI. BARÁTTUSVIÐ HÚMANISTA

Helstu baráttusvið húmanista eru atvinnumál, húsnæðismál, verkalýðsmál, stjórnmál og menningarmál og markmiðið er að skapa félagslega hreyfingu. Á þennan hátt greiðir húmanisminn fyrir því að ýmis framfarasinnuð öfl, hópar og einstaklingar geti tekið þátt í baráttunni án þess að týna sérkennum sínum og sérstökum eiginleikum. Slík hreyfing miðar að því að stuðla að sameiningu afla, sem í vaxandi mæli verði fær um að hafa áhrif á fjölmenna þjóðfélagshópa og móta umbreytingu samfélagsins með aðgerðum sínum.

Húmanistar eru engir einfeldningar og vilja ekki slá um sig með yfirlýsingum sem betur hefðu hæft rómantík fyrri tíma. Þeir líta ekki svo á að tillögur þeirra séu albesta túlkun félagslegrar vitundar, né heldur að samtök þeirra séu hafin yfir gagnrýni. Húmanistar látast ekki vera fulltrúar neins meirihluta. Þeir starfa einfaldlega eins og þeim virðist réttlátt og stefna að umbreytingum sem þeir telja æskilegar og mögulegar hér og nú.








© 1993, Húmanistahreyfingin.. Allur réttur áskilinn..


STEFNUSKJAL HÚMANISTA - III. AFSTAÐA HÚMANISTA

III. AFSTAÐA HÚMANISTA

Aðgerðir húmanista byggjast ekki á óraunverulegum kenningum um guð, náttúruna, samfélagið eða mannkynssöguna. Þær spretta af lífsnauðsynjum, að forðast sársaukann og leitast við að öðlast vellíðan. Við þessar þarfir bætast svo væntingar manna um framtíðina sem ráðast af reynslu fortíðarinnar og þeim ásetningi að bæta ríkjandi ástand. Mannleg reynsla er ekki aðeins afleiðing náttúruvals eða samsafnaðra náttúrulegra og eðlisfræðilegra staðreynda, lögmáls er gildir um allar dýrategundir, heldur einnig og jafnframt félagsleg og einstaklingsbundin reynsla, sem beinist að því að yfirstíga stundarsársauka og koma í veg fyrir framtíðarþjáningu. Mannlegt starf, sem eflist í félagsvinnu, breytist frá kynslóð til kynslóðar í stöðugri baráttu við að bæta náttúruleg skilyrði, jafnvel líkamann sjálfan. Því er rétt að skilgreina manninn sem sögulega veru gædda félagslegri hæfni, sem er fær um að breyta heiminum og jafnvel eigin eðli. Í hvert skipti sem einstaklingur eða hópur manna beitir aðra þvingunum og ofbeldi tefur það framgang sögunnar og gerir fórnarlömbin að „náttúrulegum“ hlutum. Náttúran hefur engan ásetning. Þegar við heftum frelsi og áform einhvers er sá hinn sami gerður að „náttúrulegum“ hlut, nytjahlut.

Framvinda mannlegrar þróunar verður, þótt hægt gangi, að umbreyta náttúrunni og samfélaginu og gera útlægt ofbeldi það og ánauð sem sumir menn beita aðra. Þegar þetta gerist munum við stíga skrefið frá forsögu mannkyns til raunverulegrar sögu þess. Þangað til getum við ekki tekið mið af neinu öðru né æðra gildi en manninum sjálfum, fullnægðum og frjálsum. Þessvegna gera húmanistar að kjörorði sínu: „Ekkert ofar manninum og enginn maður neðar öðrum“. Ef við teljum guð, eða ríkið, peninga eða hvaðeina annað, vera það sem við virðum mest, þá er maðurinn settur skör lægra og þar með skapast skilyrði fyrir því að honum sé stjórnað eða jafnvel fórnað. Húmanistar gera sér ljósa grein fyrir þessu. Húmanistar gera verið hvort heldur guðleysingjar eða trúhneigðir menn. Heimssýn þeirra og gjörðir eru þó ekki reistar á trúariðkun þeirra eða trúleysi. Þeir taka mið af manninum og nærtækustu þörfum hans. Öðlist þeir trú á að í baráttu sinni fyrir betri heimi hafi þeir uppgötvað einhvern þann tilgang er þoki manninum eitthvað áleiðis á braut framfara og aukins þroska, þá beita þeir trú þessari eða uppgötvun í þágu alls mannkyns.

Húmanistar telja að grundvallarviðfangsefnið sé þetta: að vita hvort maður vill lifa lífinu og að ákveða við hvaða skilyrði.

Húmanistum býður við hvers konar ofbeldi, hvort heldur líkamlegu, efnahagslegu, trúarlegu eða hugmyndafræðilegu ofbeldi, ellegar misrétti kynja eða kynþátta. Húmanistar hafna hverskonar mismunun, dulinni eða yfirlýstri.

Húmanistar hneigjast ekki til ofbeldis. Þeir eru hins vegar fjarri því að vera hugleysingjar, né eru þeir hræddir við að bjóða ofbeldinu birginn, vegna þess að slík gjörð felur í sér tilgang. Húmanistar vilja lifa í nánum tengslum við samfélagið. Þeir setja fram raunhæfa kosti og eru þess vegna sjálfum sér samkvæmir.

Þannig eru skýr mörk milli húmanisma og andhúmanisma. Húmanisminn metur vinnuna ofar veldi fjármagnsins, raunverulegt lýðræði ofar lýðræði í orði kveðnu, dreifingu valdsins ofar miðstýringu, jöfnuð ofar mismunun, frelsi ofar kúgun, tilgang lífsins ofar uppgjöf, samsekt og firringu.

Húmanisminn sækir styrk sinn í frelsi mannsins til að velja og siðfræðin, sem hann er reistur á, er hin eina raunhæfa á okkar tímum. Hann setur traust sitt á manninn og frjálsa ákvörðun hans og greinir á milli mistaka og varmennsku, þess sem veit ekki betur og svikarans.



Stefnuskjal Húmanista - II. Lýðræði í orði og á borði

II. LÝÐRÆÐI Í ORÐI OG Á BORÐI

Sjálft skipulag lýðræðisins hefur orðið fyrir gífurlegum áföllum þar sem svo mjög hefur molnað úr hornsteinum þess - skiptingu valdsins, fulltrúakerfinu og virðingu fyrir minnihlutahópum.

Formleg skipting valdsins er mótsögn í sjálfu sér. Nægir þar að líta á uppruna og uppbyggingu hvers valdaaðila í raun til að sanna hve náin tengsl þeirra eru. Öðruvísi getur þetta ekki verið; þeir eru hlutar sama kerfis. Tíðar kreppur þar sem valdhafar taka hver fram fyrir hendurnar á öðrum, spilling og óráðsía, haldast í hendur við almennt ástand í tilteknu landi, efnahag þess og stjórnmálaaðstæður.

Allt frá því að kosningaréttur varð almennur var talið að með því að fólkið fengi að kjósa sér fulltrúa og veita þeim umboð sitt, væri lýðræðið tryggt með kosningunum. Í tímans rás höfum við hins vegar komist að raun um að hér er aðeins um að ræða fyrsta skrefið, þar sem fjöldinn velur sér örfáa fulltrúa en síðan kemur annað skref, þar sem þessir fáu fulltrúar svíkja fjöldann og gerast handbendi hagsmuna sem eru andstæðir umboðinu sem þeim var veitt. Þetta mein hefur grafið um sig innan stjórnmálaflokkanna, þar sem forysta þeirra hefur fjarlægst hagsmuni fólksins. Jafnvel innan flokksveldisins, sjálfrar flokksmaskínunnar, fjármagna voldugir hagsmunaaðilar frambjóðendur og segja þeim fyrir um hvaða málefni þeir skuli styðja. Allt ber þetta vott um djúpstæða kreppu hvað varðar inntak og framkvæmd fulltrúalýðræðisins.

Húmanistar berjast fyrir því að breyta framkvæmd fulltrúafyrirkomulagsins og leggja meiri áherslu á samráð við fólkið, á þjóðaratkvæðagreiðslur og beina kosningu fulltrúa. Þetta skiptir máli vegna þess að í ýmsum löndum gilda lög sem setja sjálfstæða frambjóðendur skör lægra en frambjóðendur stjórnmálaflokka, eða gera mönnum erfitt fyrir með fyrirsláttarreglum og fjárhagsskilyrðum, vilji þeir koma sér á framfæri við samfélagið. Allar stjórnarskrár eða lög sem hefta möguleika manna á að kjósa eða vera kjörnir eru lítilsvirðing við undirstöður raunverulegs lýðræðis, sem er ofar öllum réttarfarslegum tilskipunum. Eigi að gera mönnum jafnt undir höfði ættu fjölmiðlar að þjóna hagsmunum almennings fyrir kosningar með því t.d. að veita frambjóðendum sem eru að koma tillögum sínum á framfæri sömu aðstöðu, öllum jafnt. Á hinn bóginn ætti að setja lög um pólitíska ábyrgð er kvæðu á um að sérhver sá sem kjörinn er til opinbers embættis en stendur ekki við kosningaloforð sín, eigi á hættu að missa embætti sitt eða verða kallaður fyrir rétt.

Þetta er nauðsynlegt, því eins og málum er nú háttað sæta þeir sem ekki standa við fyrirheit sín einungis þeirri refsingu að hljóta ekki endurkosningu. Þetta er allsendis ófullnægjandi því það hindrar þá ekki í að svíkja umboðsgjafa sína. Tæknilegir möguleikar til beins samráðs um brýnustu málefni aukast dag frá degi. Hér er ekki átt við aukna áherslu á skoðanakannanir og aðrar athuganir, sem iðulega eru rangtúlkaðar, heldur um að gera þátttöku alls almennings og beina atkvæðagreiðslu aðgengilega með þróaðri tölvutækni og rafeindamiðlun upplýsinga.Í raunverulegu lýðræði ætti að veita minnihlutahópum tryggingu í fullu samræmi við fjölda þeirra, sem til þessara hópa teljast, og auðvelda ætti þeim þátttöku í samfélaginu með öllum ráðum. Eins og er verða minnihlutahópar einatt fyrir barðinu á útlendingahatri og mismunun af ýmsu tagi, enda þótt þeir sárbiðji um viðurkenningu samfélagsins. Við þessar aðstæður ber húmanistum að hefja málefni minnihlutahópa til jafngildis við það, sem efst er á baugi hverju sinni, og leiða í hvívetna baráttuna gegn fasisma, duldum eða yfirlýstum. Barátta fyrir rétti minnihlutahópa jafngildir baráttu fyrir rétti allra manna.

Einnig tíðkast það nú, að innan þjóðarheildar þurfi heil héruð, landshlutar eða sjálfstjórnarsvæði að þola slíka mismunun gagnvart minnihlutahópum, vegna yfirgangs hins miðstýrða ríkisvalds, sem orðið er að tilfinningasnauðu verkfæri í höndum fjármagnsveldisins. Þessu ætti að linna ef komið væri á fót sambandsstjórnarskipulagi, þar sem raunverulegu pólitísku valdi yrði skilað aftur til þeirra sögulegu menningarsamfélaga sem í hlut eiga.

Umræða um vinnu og fjármagn, raunverulegt lýðræði og markmið valddreifingar í stjórnkerfi ríkja jafngildir því í raun að beina hinni pólitísku baráttu inn á þá leið að skapa nýja samfélagsgerð - sveigjanlegt samfélag í stöðugri aðlögun að breytilegum þörfum fólksins, alþýðu manna, sem nú liggur við köfnun vegna þess hve sjálfstæði hennar er skert.


Stefnuskjal Húmanista frh. - III. AFSTAÐA HÚMANISTA

Aðgerðir húmanista byggjast ekki á óraunverulegum kenningum um guð, náttúruna, samfélagið eða mannkynssöguna. Þær spretta af lífsnauðsynjum, að forðast sársaukann og leitast við að öðlast vellíðan. Við þessar þarfir bætast svo væntingar manna um framtíðina sem ráðast af reynslu fortíðarinnar og þeim ásetningi að bæta ríkjandi ástand. Mannleg reynsla er ekki aðeins afleiðing náttúruvals eða samsafnaðra náttúrulegra og eðlisfræðilegra staðreynda, lögmáls er gildir um allar dýrategundir, heldur einnig og jafnframt félagsleg og einstaklingsbundin reynsla, sem beinist að því að yfirstíga stundarsársauka og koma í veg fyrir framtíðarþjáningu. Mannlegt starf, sem eflist í félagsvinnu, breytist frá kynslóð til kynslóðar í stöðugri baráttu við að bæta náttúruleg skilyrði, jafnvel líkamann sjálfan. Því er rétt að skilgreina manninn sem sögulega veru gædda félagslegri hæfni, sem er fær um að breyta heiminum og jafnvel eigin eðli. Í hvert skipti sem einstaklingur eða hópur manna beitir aðra þvingunum og ofbeldi tefur það framgang sögunnar og gerir fórnarlömbin að „náttúrulegum“ hlutum. Náttúran hefur engan ásetning. Þegar við heftum frelsi og áform einhvers er sá hinn sami gerður að „náttúrulegum“ hlut, nytjahlut.

Framvinda mannlegrar þróunar verður, þótt hægt gangi, að umbreyta náttúrunni og samfélaginu og gera útlægt ofbeldi það og ánauð sem sumir menn beita aðra. Þegar þetta gerist munum við stíga skrefið frá forsögu mannkyns til raunverulegrar sögu þess. Þangað til getum við ekki tekið mið af neinu öðru né æðra gildi en manninum sjálfum, fullnægðum og frjálsum. Þessvegna gera húmanistar að kjörorði sínu: „Ekkert ofar manninum og enginn maður neðar öðrum“. Ef við teljum guð, eða ríkið, peninga eða hvaðeina annað, vera það sem við virðum mest, þá er maðurinn settur skör lægra og þar með skapast skilyrði fyrir því að honum sé stjórnað eða jafnvel fórnað. Húmanistar gera sér ljósa grein fyrir þessu. Húmanistar gera verið hvort heldur guðleysingjar eða trúhneigðir menn. Heimssýn þeirra og gjörðir eru þó ekki reistar á trúariðkun þeirra eða trúleysi. Þeir taka mið af manninum og nærtækustu þörfum hans. Öðlist þeir trú á að í baráttu sinni fyrir betri heimi hafi þeir uppgötvað einhvern þann tilgang er þoki manninum eitthvað áleiðis á braut framfara og aukins þroska, þá beita þeir trú þessari eða uppgötvun í þágu alls mannkyns.

Húmanistar telja að grundvallarviðfangsefnið sé þetta: að vita hvort maður vill lifa lífinu og að ákveða við hvaða skilyrði.

Húmanistum býður við hvers konar ofbeldi, hvort heldur líkamlegu, efnahagslegu, trúarlegu eða hugmyndafræðilegu ofbeldi, ellegar misrétti kynja eða kynþátta. Húmanistar hafna hverskonar mismunun, dulinni eða yfirlýstri.

Húmanistar hneigjast ekki til ofbeldis. Þeir eru hins vegar fjarri því að vera hugleysingjar, né eru þeir hræddir við að bjóða ofbeldinu birginn, vegna þess að slík gjörð felur í sér tilgang. Húmanistar vilja lifa í nánum tengslum við samfélagið. Þeir setja fram raunhæfa kosti og eru þess vegna sjálfum sér samkvæmir.

Þannig eru skýr mörk milli húmanisma og andhúmanisma. Húmanisminn metur vinnuna ofar veldi fjármagnsins, raunverulegt lýðræði ofar lýðræði í orði kveðnu, dreifingu valdsins ofar miðstýringu, jöfnuð ofar mismunun, frelsi ofar kúgun, tilgang lífsins ofar uppgjöf, samsekt og firringu.

Húmanisminn sækir styrk sinn í frelsi mannsins til að velja og siðfræðin, sem hann er reistur á, er hin eina raunhæfa á okkar tímum. Hann setur traust sitt á manninn og frjálsa ákvörðun hans og greinir á milli mistaka og varmennsku, þess sem veit ekki betur og svikarans.


Stefnuskjal Húmanista - Alþjóða fjármagnið

"I. ALÞJÓÐAFJÁRMAGNIÐ

Þetta er Stórisannleikur okkar tíma: Peningar eru allt. Peningar eru ríkisstjórn, peningar eru lög og peningar eru völd. Þeir eru í raun forsenda þess að við höfum í okkur og á. Þeir eru list, heimspeki og trúarbrögð. Menn gera ekkert án peninga, án þeirra er ekkert hægt. Peningar hafa áhrif á persónuleg samskipti, náin tengsl og fjölskyldulíf. Jafnvel hóglát einvera krefst fjár.

Viðhorf okkar til þessa allsherjarsannleika eru þó mótsagnakennd. Þorri manna er ósáttur við að þetta sé svona. Við erum seld undir peningaharðstjórn, sem ekki er huglægt fyrirbæri heldur efnislegt, því hún á sér heiti, talsmenn, framkvæmdaraðila og skýrar reglur.

Nú á dögum eru það ekki lénshagkerfi né landsiðnaður, hvað þá hagsmunir svæðisbundinna hópa sem máli skipta. Nú snýst allt um það, hvernig þessar sögulega tilkomnu heildir laga sig að forskriftum hins alþjóðlega fjármagnskerfis – alþjóðlegs spákaupmennskufjármagns sem sífellt safnast á færri manna hendur. Þannig byggist jafnvel tilvera þjóðríkja á lánstrausti og lánaviðskiptum. Allir mæna á fjárfestana og trygging er boðin fram gagnvart bönkunum, sem hafa síðasta orðið. Senn líður að því að fyrirtækin verði, rétt eins og landsbyggðin og borgirnar, óvéfengjanleg eign hins alþjóðlega bankakerfis. Tími allsherjarríkisins er í nánd, og þar með krafan um niðurrif alls þess sem áður var.

Jafnframt þessu er fyrri samstaða að eyðast. Við erum í raun vitni að upplausn samfélagsins og tilkomu miljóna firrtra manna, sem láta sig lítt varða um annarra hag, þrátt fyrir sameiginlega örbirgð og þjáningu. Fjármagnsveldið ræður ekki aðeins yfir efnislegu lífi okkar með stjórn sinni á framleiðsluþáttunum, heldur einnig yfir huglægri tilveru okkar með stjórn sinni á fjarskiptum og fjölmiðlum. Við þessar kringumstæður getur það ráðskast að vild með efnislegar og félagslegar auðlindir okkar, unnið óbætanleg náttúruspjöll og smám saman ýtt manneskjunni til hliðar. Til þess ræður fjármagnsveldið þegar yfir nægilegri tækni. Rétt eins og stjórnendur fjármagnsins hafa tæmt verksmiðjur og tekið völdin af ríkisstjórnum hafa þeir einnig gersneytt vísindin merkingu með því að nýta sér háþróaða tækni til að valda fátækt, eyðileggingu og atvinnuleysi.

Húmanistar þurfa ekki að beita fjálglegum rökum til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni, að tæknilega séu jarðarbúar fullfærir um að ráða skjóta bót á vandamálum af völdum atvinnuleysis, erfiðleika á fæðuöflun, ástands heilbrigðismála, húsnæðismála og menntamála á stórum svæðum víða um heim. Séu möguleikar til þessa ekki nýttir er það einfaldlega vegna þess að tröllaukið gróðabrask fjármagnsveldisins hindrar framkvæmdir.

Fjármagnsveldið er nú þegar komið út fyrir ramma markaðshagkerfisins og er farið að setja samfélaginu reglur um hvernig það skuli bregðast við þeirri ringulreið sem stjórnendur fjármagnsveldisins hafa skapað. Þessari rökleysu er hinsvegar ekki mætt með skynsamlegum rökræðum. Þvert á móti er hið gagnstæða að gerast, því kynþáttahatur, bókstafstrú og öfgastefnur aftan úr forneskju eru að koma fram á sjónarsviðið. Nái þessi nýja rökleysustefna undirtökunum svæðisbundið og í stærri samfélögum minnkar svigrúm framfarasinnaðra afla dag frá degi. Á hinn bóginn hafa miljónir verkamanna nú þegar gert sér grein fyrir óraunsæi hins miðstýrða ríkis annars vegar og fláræði hins kapítalíska lýðræðis hinsvegar. Þess vegna eru verkamenn óðum að rísa gegn spilltum stjórnum stéttarfélaga, rétt eins og almenningur er farinn að tortryggja stjórnmálaflokka og ríkisstjórnir. Nauðsynlegt er að marka þessum hræringum stefnu, því sé það ekki gert festast þær í handahófskenndum og ómarkvissum aðgerðum og verður ekkert ágengt. Brýn nauðsyn er á almennri umræðu um grundvallarhugmyndir manna um framleiðsluþættina.

Frá sjónarmiði húmanista eru framleiðsluþættirnir vinna og fjármagn; gróðabrask og okurlánastarfsemi á þar ekki heima. Eins og mál standa nú berjast húmanistar fyrir gagngerum breytingum á fráleitum tengslum þessara tveggja þátta. Fram til þessa hefur það verið viðtekin hugmynd, að hagnaður sé réttilega fjármagnseigandans og launin komi í hlut verkamannsins. Ójöfnuðurinn er réttlættur með áhættu fjárfestandans, rétt eins og sérhver verkamaður stofni ekki í hættu tilveru sinni í nútíð og framtíð í sveiflum kreppu og atvinnuleysis.

Hér skiptir einnig höfuðmáli stjórnun og ákvarðanataka innan fyrirtækis. Hætt er við að hagnaður sem ekki er nýttur til að efla fyrirtæki eða auka fjölbreytni í framleiðslu og fara inn á nýjar brautir verði notaður í spákaupmennsku. Af þessum sökum verður barátta verkafólks að beinast að því að þvinga fjármagnið til að skila sem mestum afrakstri framleiðslunnar.

Þessu verður ekki komið til leiðar nema með sameiginlegri stjórnun og stefnumótun. Hvernig verður öðruvísi komist hjá stórfelldum uppsögnum og lokun og rýmingu verksmiðjanna? Ranglætið felst í fjárfestingum utan rekstrar, sviksamlegum gjaldþrotum, skuldasöfnun af ásetningi og fjármagnsflótta - en ekki í ágóða sem hægt er að mynda með því að þróa framleiðni. Væri krafist upptöku framleiðslutækjanna í þágu verkafólks, í anda kenninga 19. aldarinnar, ættum við að minnast nýorðins hruns sósíalismans í framkvæmd.

Sé þau andmæli höfð uppi, að með því að setja fjármagninu skorður á sama hátt og vinnunni myndi það leiða til flótta þess til hagkvæmari sviða og svæða, er rétt að hafa hugfast að slíkt gerist að öllum líkindum ekki í náinni framtíð, þar sem rökleysa ríkjandi kerfis leiðir til mettunar og heimskreppu. Þessi andmæli, sem eru í eðli sínu siðlaus, taka ekki tillit til sögulegrar yfirfærslu fjármagnsins til hins alþjóðlega fjármálakerfis. Með þessari tilfærslu fjár hefur sjálfstæðum atvinnurekendum smám saman verið breytt í starfsmenn sem hafa í raun ekkert ákvörðunarvald, hlekki í keðju sem veitir þeim einungis sjálfsforræði í orði kveðnu. Hins vegar gefa atvinnurekendur þessum atriðum nánari gaum eftir því sem kreppan ágerist.

Húmanistar finna hjá sér þörf til að hefjast handa, ekki aðeins á sviði verkalýðsmála, heldur einnig á stjórnmálasviðinu, til að koma í veg fyrir að ríkið verði verkfæri í höndum hins alþjóðlega fjármagnsveldis; þeir vilja ná fram sanngjörnum skiptum milli framleiðsluþáttanna; þeir vilja að samfélagið endurheimti sjálfsákvörðunarréttinn sem af því var tekinn."



Stefnuskjal Húmanista

Stefnuskjal húmanista hefur ekki komið fyrir augu margra hér á landi og því birtist það hér í þeirri von að einhverjir lesi og nýti sér. Það er vissulega þörf á stefnu sem beinist að eflingu mennskunnar í þjóðfélaginu.

 

Inngangur

" Húmanistar eru konur og karla þessarar aldar, þessa tímaskeiðs. Húmanistar þekkja sögulegar forsendur húmanisma fyrri alda og taka mið af framlagi mismunandi menningarheima, en ekki einvörðungu þeirrar menningar sem nú lætur mest að sér kveða. Þetta er fólk sem gerir sér grein fyrir því að senn kveður það þessa öld og gengur á vit nýrrar heimsmyndar.

Húmanistar telja sig eiga langa sögu að baki og enn lengri framtíð fyrir höndum. Þeir horfa fram á veginn, til baráttu og sigurs á hinni almennu kreppu sem nú ríkir. Þeir eru bjartsýnir og trúa á frelsi og félagslegar framfarir.

Húmanistar eru alþjóðasinnar og keppa að því að koma á alþjóðlegu mennsku samfélagi. Þeir líta á heiminn sem eina heild og starfa í nánasta umhverfi sínu. Þeir hafna einsleitum heimi, en vilja fjölbreytni: fjölbreytt þjóðerni, tungumál, siði og venjur; fjölbreytni í búsetu, svæðaskipan og sjálfsforræði; fjölbreyttar hugmyndir og markmið; fjölbreytileika trúar, jafnt guðleysingja sem guðrækinna; fjölbreytni í starfi og sköpun.

Húmanistar hafna yfirboðurum; þeir vilja ekki stjórnendur eða yfirmenn af neinu tagi; þeir telja sig hvorki fulltrúa né yfirmenn neinna annarra. Húmanistar vilja hvorki miðstýrt ríki né allsherjarríki eða ríkjaheild er leysi það af hólmi. Húmanistar vilja ekki lögregluheri eða vopnaða flokka manna sem komi í þeirra stað.

Milli baráttumála húmanista og núverandi ástands í heiminum hefur verið reistur múr. Nú er mál til komið að brjóta þennan múr niður. Til þess að svo geti orðið verða húmanistar um allan heim að sameinast."


 


Heimsganga í þágu friðar og tilveru án ofbeldis


Heimsganga í þágu friðar og tilveru án ofbeldis


Málþing Húmanista í Afríku


Kynning á Heimsgöngu í þágu friðar og tilveru án ofbeldis

Húmanistahreyfingin og Miðstöð menninga bjóða til opins fundar sunnudaginn 21. desember. kl. 15.30 á Café Cultura, Hverfisgötu 18 (beint á móti Þjóðleikhúsinu).

Á fundinum verður Heimsgangan í þágu friðar og tilveru án ofbeldis kynnt en um hana má lesa nánar á slóðinni: www.heimsganga.is .  Heimsgangan er krafa um afnám kjarnavopna en með henni er einnig styrjöldum hafnað sem lausn á deilum þjóða. Gangan er jafnframt ósk um tilveru án ofbeldis hvort sem það birtist sem efnahagslegt ofbeldi, kynþáttaofbeldi, kynjaofbeldi, túarofbeldi eða hvers kyns andlegt eða sálrænt ofbeldi.

Ég hvet ykkur til að líta við á Café Cultura og taka þátt í hugarflugi og umræðum um það hvernig við á Íslandi getum lagt okkar fram til þessarar spennandi göngu. Hugmyndin er að virkja sem flest samtök, hópa og einstaklinga með sitt skapandi framlag. Á fundinum flytur hópurinn Miss Mount frumsamið efni í tilefni Heimsgöngunnar.

Hlýjar kveðjur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband