Bréf til vina minna - eftir Silo upphafsmann Húmanistahreyfingarinnar

Um langa hríð hefur þessi bloggsíða mín ekki verið virk sem slík en nú mun ég virkja hana og nýta til að kynna efni sem gæti komið að gagni við að skapa betra samfélag á Íslandi sem og annarsstaðar - mennskt samfélag. Aðallega mun verða um að ræða efni eftir upphafsmann Húmanistahreyfingarinnar, Silo - Mario Luis Rodrigues Cobos. http://en.wikipedia.org/wiki/Mario_Luis_Rodr%C3%ADguez_Cobos
http://silo.net/en/home
Fyrsta ritið sem birtisnú á þessari bloggsíðu er BRÉF TIL VINA MINNA sem kom fyrst út á spænsku árið 1994 en var útgefið á íslensku af Hverfisfélagi húmanista í vesturbæ Reykjavíkur í maí 1998.
Umrædd bréf eru tíu talsins og mun ég birta þau hér á síðunni kafla fyrir kafla.

Fyrsta bréf til vina minna
21. febrúar 1991

Kæru vinir,
Um nokkurn tíma hafa mér borist bréf víðsvegar að úr heiminum, þar sem ég er beðinn um að skýra betur eða útfæra nánar, ýmis efni sem koma fyrir í bókum mínum. Oftast er ég beðinn um að útskýra áþreifanleg mál, svo sem ofbeldi, stjórnmál, hagfræði, umhverfismál og félagsleg tengsl sem og tengsl milli einstaklinga. Eins og sjá má eru hugðarefni fólks mörg og af ýmsum toga og því ljóst að sérfræðinga á þessum sviðum þyrfti til að svara, sem ég er auðvitað ekki. Samt get ég vonandi í stuttu máli, að svo miklu leyti sem ég get án þess að endurtaka það sem ég hef skrifað annarsstaðar, lýst í meginatriðum þeim almennu aðstæðum sem við búum við í dag og helstu straumum sem nú eru að skjóta upp kollinum.
Á öðrum tímum hefur ákveðin hugmynd um "menningarsjúkdóm" verið notuð sem hinn rauði þráður lýsingar af þessu tagi. Hér mun ég þess í stað einblína á hinar öru breytingar sem nú eiga sér stað, jafnt á hagkerfum ýmissa landa sem siðvenjum, á hugmyndakerfum jafnt sem gildismati. Með þessu vil ég reyna að finna rætur þessa sérstaka stefnuleysis sem í dag virðist vera að kæfa bæði einstaklinga og heilar þjóðir.
Áður en ég tek til við þetta efni vil ég gera tvær athugasemdir. Hin fyrri varðar heiminn sem er horfinn - einhverjum gæti fundist það efni litið með nokkrum söknuði í þessu bréfi. Varðandi þetta atriði vil ég segja að við sem trúum á framþróun mannsins erum hreint ekki niðurdregin vegna þeirra breytinga sem við sjáum. Þvert á móti, myndum við vilja hraða atburðarásinni enn frekar, samtímis því sem við reynum betur og betur að aðlaga okkur þessum nýju tímum.
Seinna atriðið varðar stíl þessa bréfs - einhverjum gæti fundist við einfalda um of mál þeirra sem við gagnrýnum, með því að setja þessi efni fram á svo "frumstæðan" hátt sem raun ber vitni. Þeir sem við gagnrýnum setja hlutina hreint ekki fram á þennan hátt. Hvað varðar tjáningarform sem þessir formælendur hins "Nýja Heimsskipulags" gætu kosið, vildi ég einungis gefa eftirfarandi skýringu. Þegar minnst er á þetta fólk leita sífellt á huga minn kaflar úr tveimur mjög ólíkum bókmenntaverkum, 1984 eftir George Orwell og Veröld ný og góð eftir Aldous Huxley. Báðir þessir óvenjulegu rithöfundar sáu fyrir sér framtíðarheim, þar sem, annaðhvort með ofbeldisaðferðum eða áróðri, mannveran var að lokum undirokuð og gerð að vélmenni. En ég trúi að þeir hafi báðir, kannski undir áhrifum frá svartsýni síns tíma, sem ég ætla ekki að reyna að túlka hér, ætlað "þeim vondu" of mikla skynsemi í bókum sínum, og "þeim góðu" of mikla heimsku.
Í dag eru "hinir slæmu" mjög gráðugt fólk, haldið mörgum vandamálum, en í öllum tilvikum algerlega ófært um að beina sögulegri framvindu í góðan farveg, framvindu sem greinilega lætur sig engu skipta vilja þeirra né getu til skipulagningar. Þetta fólk, sem leggur sig lítt fram, hefur síðan tæknimenn í þjónustu sinni sem hafa einungis hlutalausnir og sorglega ófullnægjandi úrræði. Því vil ég biðja ykkur um að taka ekki of alvarlega þær fáu málsgreinar, þar sem ég hef skemmt mér við að leggja þeim orð í munn er þeir segja ekki í raun, þó ásetningur þeirra beinist í þá átt sem liggur í orðunum. Ég held að við ættum að skoða þessa hluti án þeirrar alvörugefni sem er svo einkennandi fyrir þetta deyjandi tímabil og þess í stað fjalla um þá með kímni sem virðir ekki neitt, líkt og finnst í bréfum sem fara á milli góðra vina.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband