6. Saga fyrir þá sem vilja verða framkvæmdastjórar - úr Bréf til vina minna eftir Silo

6. Saga fyrir þá sem vilja verða framkvæmdastjórar
"Samfélagið sem er að skapast mun loksins færa okkur allsnægtir. Auk stórkostlegra efnislegra framfara mun mannkynið verða frjálst. Ekki mun lengur vera þörf á einhverri gamaldags 'samstöðu', þeirri fátæktardellu, því þegar hér er komið sögu eru flestir á einu máli um að peningar eða eitthvað í þeim dúr geti leyst nærri öll vandamál. Við munum því beina öllum kröftum okkar, hugsun og draumum í þá átt. Með peningum má kaupa sér góðan málsverð, fallegt heimili, ferðalög, afþreyingu, tæknileg leiktæki og fólk sem gerir það sem óskað er. Loksins verður hagkvæm ást, hagkvæm list og hagkvæm sálfræði til að leysa þau vandamál sem eftir gætu verið. Jafnvel þau vandamál verða fljótlega leyst með nýjum uppgötvunum í taugaefnafræði og erfðaverkfræði.
Í þessu þjóðfélagi allsnægtanna munum við sjá sjálfsmorðstíðni, áfengissýki, vímuefnaneyslu, glæpi, og aðra þætti sem truflað gætu svefn borgaranna, deyja smám saman út - eins og við erum fullvissuð um muni raunar gerast einhvern daginn mjög fljótlega í efnahagslega þróuðum samfélögum. Misrétti mun líka hverfa og samskipti allra munu aukast. Enginn mun lengur verða að velta sífellt fyrir sér þarflausum spurningum um tilgang lífsins, einmanaleika, veikindi, elli eða dauða, því með viðeigandi námskeiðum og lítilsháttar meðferð má setja loku fyrir slík viðbrögð sem ávallt hafa hamlað hagkvæmni og framleiðni samfélaga. Allir treysta öllum, því samkeppni í vinnu, námi og sambúð skapar þroskuð tengsl á milli manna.
Að lokum deyr hugmyndafræðin út og verður ekki lengur notuð til að heilaþvo fólk. Auðvitað hindrar enginn mótmæli eða óánægju neins vegna minniháttar málefna, ef notaðar eru viðeigandi tjáningarleiðir. Borgararnir mega koma saman (af heilbrigðisástæðum í litlum hópum) svo fremi sem þeir rugla ekki saman frelsi og taumleysi, og geta jafnvel tjáð sig utandyra (auðvitað með þeim skilyrðum að þeir trufli ekki aðra með hávaða, mengun eða kynningarefni sem gæti spillt útliti sveitarfélagsins, eða hvað sem það verður kallað í framtíðinni).
En best af öllu verður samt þegar lögregluvakt verður ekki lengur nauðsynleg. Í stað hennar tekur hver borgari ábyrgð á því vernda hina gegn lygum hugmyndafræðilegra hryðjuverkamanna. Borgararnir verða svo þjóðfélagslega ábyrgir að ef vart yrði við hugmyndafræðilegar lygar hryðjuverkamanna gengju þeir beint til fjölmiðla svo hægt væri að vara aðra borgara við hættunni. Borgararnir munu skrifa snjallar ritgerðir sem verða samstundis gefnar út. Þeir munu setja á laggirnar ráðstefnur þar sem fágað skoðanamyndandi fólk mun útskýra fyrir skammsýnu fólki að ennþá væri það í greipum hinna dimmu afla efnahagsmiðstýringar, valdboðsstefnu, andlýðræðis og trúarofstækis.
Ekki verður einu sinni nauðsynlegt að eltast við þá sem raska ró borgaranna, því fjölmiðlun verður svo hagkvæm, að enginn mun vilja koma nálægt þeim vegna hættunnar á að mengast af hugmyndafræði þeirra.
Í verstu tilfellunum verða þeir "endurforritaðir" á hagkvæman hátt. Þeir munu þakka opinberlega fyrir að vera komnir í þjóðfélagið á ný og lofa kosti þess að þekkja á ný takmörk frelsisins.
Hinir dugmiklu verjendur borgaranna eru venjulegt fólk sem kann best við sig í nafnleysi fjöldans, þegar þeir eru ekki uppteknir við að sinna skyldum sínum, þeir verða þekktir í þjóðfélaginu fyrir siðgæði sitt, gefa eiginhandaráritanir og eins og eðlilegt er njóta þeir ríflegs endurgjalds.
Fyrirtækið verður að stórri fjölskyldu sem ýtir undir hæfni, mannleg samskipti og tómstundaiðju. Vélmenni hafa rutt líkamlegri vinnu úr vegi. Að vinna fyrir Fyrirtækið heima hjá sér verður hin sanna persónulega fullnæging einstaklingsins.
Þannig mun samfélagið ekki hafa þörf fyrir önnur samtök en þau sem fyrirfinnast i Fyrirtækinu. Maðurinn, sem ávallt hefur barist fyrir vellíðan sinni, hefur að lokum skapað himnaríki á jörðu. Þar sem hann ferðast milli pláneta hefur hann fundið hamingjuna. Þar verður hann samkeppnishæft ungmenni, hann verður tælandi, ágjarn, sigursæll og raunsær, umfram allt raunsær ...stjórnandi Fyrirtækisins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband