AF ÖLLU HJARTA

Grein úr Morgunblaðinu
Söfnun til kaupa á lækningatækjum fyrir Landsspítalann vekur upp spurningar um mannréttindi og hvað eigi að ganga fyrir þegar skattfénu er ráðstafað.

Nýlega lýsti biskupinn yfir Íslandi áformum um fjársöfnun á vegum þjóðkirkjunnar til að kaupa lækningatæki fyrir Landsspítalann. Af þessu tilefni sendi Húmanistaflokkurinn frá sér yfirlýsingu þar sem lögð var áhersla á að heilbrigðisþjónusta er fæðingarréttur hvers manns sem stjórnvöldum ber skylda til að tryggja. Það er því skref aftur á bak ef kirkjan fer að safna peningum til að létta þessari skyldu af ríkinu. Með þessu er Húmanistaflokkurinn þó ekki að draga í efa þann velvilja sem lá að baki áforma biskupsins.

Íslendingar eru hjálpsamir
Þessi atburður vekur mig til hugsunar um hve Íslendingar eru örlátir og fúsir til að rétta hjálparhönd þegar fólk er í nauðum statt. Sveltandi börn í fjarlægum löndum og fórnarlömb snjóflóðs hér á landi snerta okkur og þá er sjálfsagt að veita þá hjálp sem hver og einn getur. Fjölmörg dæmi eru um að samstillt átak hafi lyft Grettistaki þegar neyðin var mikil.

Skattféð í nauðsynjar
Íslendingar eru hins vegar ekki eins fúsir að borga skattana sem á þá eru lagðir eins og þeir eru reiðubúnir að hjálpa í fjársöfnunum. Skyldi það hafi með það að gera að í vaxandi mæli er skattfénu varið til þess sem er fjarri þvi að vera nauðsynjar og eða tengist grundvallar réttindum fólks? Skorið er niður í heilbrigðiskerfinu og framlög til menntunar. Gamlir og lasburða eru látnir mæta afgangi á meðan fjármagnseigendum er tryggður þeirra hlutur. Hver man ekki eftir þegar forsætisráðherrann lýsti yfir að innistæður yrðu tryggðar uppí topp en þær voru að mestu í eigu örfárra einstaklinga sem hver um sig átti gýfurlegar fjárhæðir á bankabókum. Stjórnmálamenn og toppar í kerfinu hafa tryggt sér lífeyri sem er margfaldur á við það sem venjulegt fólk fær sem aukinheldur rýrnar stöðugt. Hundruðir milljarða fara í að endurreisa ofvaxið bankakerfi og hundrað milljarðar fara á hverju ári í vexti af skuldum sem ríkið hefur tekið á sig. Vaðlaheiðargöng ganga fyrir sjúkrarúmum fyrir aldraða. Skyldi nokkurn undra að það gæti nokkurrar ógleði þegar skattarnir eru greiddir.

Menntun og heilbrigði mikilvægast
Húmanistaflokkurinn telur að mikilvægustu gildi þjóðfélagsins séu heilbrigði og menntun og grundvallar lífsgæði fólks. Því beri að láta menntun fólks og heilsu ganga fyrir umönnun banka og eignafólks. Aðhlynning gamals fólks og öryrkja á að ganga fyrir ofurlífeyri þeirra sem hafa skammtað sér hann sjálfir. Menntun á að vera fyrir alla og ókeypis og ganga fyrir jarðgöngum, vaxtagreiðslum og verðbótum.

Út úr blindgötunni
Nú til dags eru hagsmunir peninga og valdamanna látnir ganga fyrir við útdeilingu skattfjárins, þetta er lýsandi fyrir gildismatið sem mótar þjóðfélagið núna. Það gengur þó þvert gegn þeirri afstöðu sem birtst hjá fólki þegar það hefur tækifæri til að hjálpa nauðstöddum. Þessi mótsögn þegar við stjórnumst af gildismati peninga- og einstaklingshyggju og framkvæmum gegn betri vitund er aflvaki óreiðu og togstreitu þeirrar sem við upplifum nú. Breyting á ríkjandi gildismati - sem birtist í skýrum áformum um mennska framtíð og forgangsröð sem er samboðin mannlegri reisn er leiðin út úr blindgötunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband