STEFNUSKJAL HÚMANISTA

IV. FRÁ NÁTTÚRULEGUM HÚMANISMA TIL MEÐVITAÐS HÚMANISMA

Húmanisminn á að virkja grasrót samfélagsins, með þátttöku í lífi fólks og störfum, breyta einföldum mótmælaaðgerðum í meðvitað afl, sem beinist að breytingum á sjálfu efnahagsskipulaginu.

Að því er snertir þá er berjast fyrir málstaðnum innan stéttarfélaga og pólitískra framfaraflokka þá mun barátta þeirra eflast og verða heildstæðari eftir því sem þeim tekst að hafa áhrif á leiðtoga samtaka sinna og fá félaga sína til liðs við stefnu sem setur grundvallarmarkmið húmanismana í fyrsta sæti, ofar öllum skammtímamarkmiðum.

Hin fjölmenna stétt námsmanna og kennara ber að öllu jöfnu næmt skynbragð á óréttlæti og þegar kerfiskreppan snertir hana, mun hún koma á framfæri vilja sínum til breytinga. Fjölmiðlafólk, sem er í tengslum við harmleiki hversdagslífsins, er einnig í aðstöðu til að starfa í samræmi við stefnu húmanista á saman hátt og ýmsir menntamenn sem sýna í verki andstöðu sína við kröfur ómanneskjulegs kerfis.

Sé horft til staðreynda mannlegra þjáninga er fjölmargt hægt að gera og ýmis viðfangsefni tiltæk, sem bjóða fólki að takast á hendur óeigingjarnt starf í þágu hinna útskúfuðu og þeirra sem er mismunað. Samtök, hópar sjálfboðaliða og stór hluti almennings er stundum virkjaður til jákvæðs framlags. Án efa er slíkt framlag til þess fallið að afhjúpa vandamálin og varpa ljósi á þau. Á hinn bóginn stefna þessir hópar ekki að því með störfum sínum að breyta þeirri samfélagsskipan sem orsakaði vandamálin. Aðgerðir þeirra sverja sig meira í ætt við líknarstarfsemi en meðvitaðan húmanisma. Þó felast í þessari viðleitni til góðra verka aðgerðir og andóf, sem hægt væri að efla og beita af meiri ákveðni og í víðara samhengi.


V.HERBÚÐIR ANDHÚMANISTA

Þau öfl sem fjármagnsveldið hefur yfir að ráða herða enn hálstakið á þjóðum heims. Sundurleit öfl leysast úr læðingi og sækja sér styrk í ríkjandi öryggisleysi, sem þau eru lagin við að nýta sér, og beina andúð að þeim er ekkert hafa til saka unnið. Grundvöllur þessarar nýfasísku stefnu er djúpstæð afneitun mannlegra gilda. Vistverndarstefna á villigötum tekur upp hanskann fyrir náttúruna á kostnað mannsins. Samkvæmt þessari stefnu eru vistfræðileg slys ekki slæm vegna þess að þau stofni mannkyni í hættu, heldur vegna þess að maðurinn hafi gerst tilræðismaður við náttúruna. Sumar þessara kenninga telja manninn sjálfan mengaðan og því sé hann mengunarvaldur í náttúrunni. Þessir aðilar líta svo á að betra hefði verið ef læknavísindunum hefði mistekist að ráða bug á fjölda sjúkdóma og lengja meðalævi mannsins. „Jörðin númer eitt !!“ hrópa þeir sefasýkislega svo að minnir á vígorð nasistanna forðum. Þá er stutt í mismunun gagnvart mengandi menningu eða gagnvart útlendingum, sem taldir eru menga þjóðlífið. Þessar stefnur flokkast undir andhúmanisma því þær grundvallast á mannfyrirlitningu. Forvígismenn þeirra fyrirlíta sjálfa sig og endurspegla þannig þær niðurrifs- og sjálfsvígstilhneigingar, sem nú eru svo mjög í tísku.

Verulegur hluti skynugs fólks styður þó einnig umhverfisvernd, vegna þess að það gerir sér ljóst hve alvarleg vandamál er hér um að ræða. Ef vistverndarmenn tækju upp stefnu húmanismans, yrði baráttunni beint gegn þeim sem valdir eru að hörmungunum, það er að segja gegn fjármagnsveldinu og víðfeðmri keðju eyðileggjandi iðnrekstrar og atvinnustarfsemi, sem er nátengd hergagnaframleiðslubákninu. Áður en menn fara að hafa áhyggjur af selunum, ættu þeir snúa sér að hungrinu í heiminum, offjölgun mannkyns, barnadauða, sjúkdómum, skorti á hreinlætisaðstöðu og húsnæði í mörgum heimshlutum. Þeir ættu að vinna gegn atvinnuleysi, arðráni, kynþáttahatri, mismunun og skorti á umburðarlyndi í tæknilega þróuðum heimi þar sem menn eru að setja vistkerfið úr skorðum í nafni glórulauss hagvaxtar.

Það er óþarfi að fjölyrða um hægri öflin sem pólitískt verkfæri andhúmanismans. Þar hefur varmennskan gengið svo langt að hægri menn kynna sig jafnvel sem fulltrúa „húmanisma“. Á hægri vængnum má einnig nefna slóttuga klerka, sem þykjast byggja kenningar sínar á svokölluðum „guðfræðilegum húmanisma“. Þessi tegund manna stóð forðum að trúarbragðastyrjöldum og rannsóknarrétti og tortímdi höfundum vestræns húmanisma á fyrri öldum. Nú eigna klerkarnir sér dyggðir fórnarlamba sinna og þykjast þess jafnvel umkomnir að „fyrirgefa frávik“ húmanista fyrri tíma. Svo óprúttnir eru andhúmanistar við að eigna sér orð þeirra að þeir skirrast ekki við að kalla sjálfa sig húmanista.

Andhúmanistar hafa aragrúa aðferða, tækja og tjáningarforma á takteinum. Þó ætti nánari útlistun á áróðursbrögðum þeirra að auka líkurnar á að ýmsir góðviljaðir og auðtrúa húmanistar endurskoði afstöðu sína og tilgang félagslegs starfs síns.


VI. BARÁTTUSVIÐ HÚMANISTA

Helstu baráttusvið húmanista eru atvinnumál, húsnæðismál, verkalýðsmál, stjórnmál og menningarmál og markmiðið er að skapa félagslega hreyfingu. Á þennan hátt greiðir húmanisminn fyrir því að ýmis framfarasinnuð öfl, hópar og einstaklingar geti tekið þátt í baráttunni án þess að týna sérkennum sínum og sérstökum eiginleikum. Slík hreyfing miðar að því að stuðla að sameiningu afla, sem í vaxandi mæli verði fær um að hafa áhrif á fjölmenna þjóðfélagshópa og móta umbreytingu samfélagsins með aðgerðum sínum.

Húmanistar eru engir einfeldningar og vilja ekki slá um sig með yfirlýsingum sem betur hefðu hæft rómantík fyrri tíma. Þeir líta ekki svo á að tillögur þeirra séu albesta túlkun félagslegrar vitundar, né heldur að samtök þeirra séu hafin yfir gagnrýni. Húmanistar látast ekki vera fulltrúar neins meirihluta. Þeir starfa einfaldlega eins og þeim virðist réttlátt og stefna að umbreytingum sem þeir telja æskilegar og mögulegar hér og nú.








© 1993, Húmanistahreyfingin.. Allur réttur áskilinn..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband