Stefnuskjal Húmanista - II. Lýðræði í orði og á borði

II. LÝÐRÆÐI Í ORÐI OG Á BORÐI

Sjálft skipulag lýðræðisins hefur orðið fyrir gífurlegum áföllum þar sem svo mjög hefur molnað úr hornsteinum þess - skiptingu valdsins, fulltrúakerfinu og virðingu fyrir minnihlutahópum.

Formleg skipting valdsins er mótsögn í sjálfu sér. Nægir þar að líta á uppruna og uppbyggingu hvers valdaaðila í raun til að sanna hve náin tengsl þeirra eru. Öðruvísi getur þetta ekki verið; þeir eru hlutar sama kerfis. Tíðar kreppur þar sem valdhafar taka hver fram fyrir hendurnar á öðrum, spilling og óráðsía, haldast í hendur við almennt ástand í tilteknu landi, efnahag þess og stjórnmálaaðstæður.

Allt frá því að kosningaréttur varð almennur var talið að með því að fólkið fengi að kjósa sér fulltrúa og veita þeim umboð sitt, væri lýðræðið tryggt með kosningunum. Í tímans rás höfum við hins vegar komist að raun um að hér er aðeins um að ræða fyrsta skrefið, þar sem fjöldinn velur sér örfáa fulltrúa en síðan kemur annað skref, þar sem þessir fáu fulltrúar svíkja fjöldann og gerast handbendi hagsmuna sem eru andstæðir umboðinu sem þeim var veitt. Þetta mein hefur grafið um sig innan stjórnmálaflokkanna, þar sem forysta þeirra hefur fjarlægst hagsmuni fólksins. Jafnvel innan flokksveldisins, sjálfrar flokksmaskínunnar, fjármagna voldugir hagsmunaaðilar frambjóðendur og segja þeim fyrir um hvaða málefni þeir skuli styðja. Allt ber þetta vott um djúpstæða kreppu hvað varðar inntak og framkvæmd fulltrúalýðræðisins.

Húmanistar berjast fyrir því að breyta framkvæmd fulltrúafyrirkomulagsins og leggja meiri áherslu á samráð við fólkið, á þjóðaratkvæðagreiðslur og beina kosningu fulltrúa. Þetta skiptir máli vegna þess að í ýmsum löndum gilda lög sem setja sjálfstæða frambjóðendur skör lægra en frambjóðendur stjórnmálaflokka, eða gera mönnum erfitt fyrir með fyrirsláttarreglum og fjárhagsskilyrðum, vilji þeir koma sér á framfæri við samfélagið. Allar stjórnarskrár eða lög sem hefta möguleika manna á að kjósa eða vera kjörnir eru lítilsvirðing við undirstöður raunverulegs lýðræðis, sem er ofar öllum réttarfarslegum tilskipunum. Eigi að gera mönnum jafnt undir höfði ættu fjölmiðlar að þjóna hagsmunum almennings fyrir kosningar með því t.d. að veita frambjóðendum sem eru að koma tillögum sínum á framfæri sömu aðstöðu, öllum jafnt. Á hinn bóginn ætti að setja lög um pólitíska ábyrgð er kvæðu á um að sérhver sá sem kjörinn er til opinbers embættis en stendur ekki við kosningaloforð sín, eigi á hættu að missa embætti sitt eða verða kallaður fyrir rétt.

Þetta er nauðsynlegt, því eins og málum er nú háttað sæta þeir sem ekki standa við fyrirheit sín einungis þeirri refsingu að hljóta ekki endurkosningu. Þetta er allsendis ófullnægjandi því það hindrar þá ekki í að svíkja umboðsgjafa sína. Tæknilegir möguleikar til beins samráðs um brýnustu málefni aukast dag frá degi. Hér er ekki átt við aukna áherslu á skoðanakannanir og aðrar athuganir, sem iðulega eru rangtúlkaðar, heldur um að gera þátttöku alls almennings og beina atkvæðagreiðslu aðgengilega með þróaðri tölvutækni og rafeindamiðlun upplýsinga.Í raunverulegu lýðræði ætti að veita minnihlutahópum tryggingu í fullu samræmi við fjölda þeirra, sem til þessara hópa teljast, og auðvelda ætti þeim þátttöku í samfélaginu með öllum ráðum. Eins og er verða minnihlutahópar einatt fyrir barðinu á útlendingahatri og mismunun af ýmsu tagi, enda þótt þeir sárbiðji um viðurkenningu samfélagsins. Við þessar aðstæður ber húmanistum að hefja málefni minnihlutahópa til jafngildis við það, sem efst er á baugi hverju sinni, og leiða í hvívetna baráttuna gegn fasisma, duldum eða yfirlýstum. Barátta fyrir rétti minnihlutahópa jafngildir baráttu fyrir rétti allra manna.

Einnig tíðkast það nú, að innan þjóðarheildar þurfi heil héruð, landshlutar eða sjálfstjórnarsvæði að þola slíka mismunun gagnvart minnihlutahópum, vegna yfirgangs hins miðstýrða ríkisvalds, sem orðið er að tilfinningasnauðu verkfæri í höndum fjármagnsveldisins. Þessu ætti að linna ef komið væri á fót sambandsstjórnarskipulagi, þar sem raunverulegu pólitísku valdi yrði skilað aftur til þeirra sögulegu menningarsamfélaga sem í hlut eiga.

Umræða um vinnu og fjármagn, raunverulegt lýðræði og markmið valddreifingar í stjórnkerfi ríkja jafngildir því í raun að beina hinni pólitísku baráttu inn á þá leið að skapa nýja samfélagsgerð - sveigjanlegt samfélag í stöðugri aðlögun að breytilegum þörfum fólksins, alþýðu manna, sem nú liggur við köfnun vegna þess hve sjálfstæði hennar er skert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband