Stefnuskjal Húmanista - Alþjóða fjármagnið

"I. ALÞJÓÐAFJÁRMAGNIÐ

Þetta er Stórisannleikur okkar tíma: Peningar eru allt. Peningar eru ríkisstjórn, peningar eru lög og peningar eru völd. Þeir eru í raun forsenda þess að við höfum í okkur og á. Þeir eru list, heimspeki og trúarbrögð. Menn gera ekkert án peninga, án þeirra er ekkert hægt. Peningar hafa áhrif á persónuleg samskipti, náin tengsl og fjölskyldulíf. Jafnvel hóglát einvera krefst fjár.

Viðhorf okkar til þessa allsherjarsannleika eru þó mótsagnakennd. Þorri manna er ósáttur við að þetta sé svona. Við erum seld undir peningaharðstjórn, sem ekki er huglægt fyrirbæri heldur efnislegt, því hún á sér heiti, talsmenn, framkvæmdaraðila og skýrar reglur.

Nú á dögum eru það ekki lénshagkerfi né landsiðnaður, hvað þá hagsmunir svæðisbundinna hópa sem máli skipta. Nú snýst allt um það, hvernig þessar sögulega tilkomnu heildir laga sig að forskriftum hins alþjóðlega fjármagnskerfis – alþjóðlegs spákaupmennskufjármagns sem sífellt safnast á færri manna hendur. Þannig byggist jafnvel tilvera þjóðríkja á lánstrausti og lánaviðskiptum. Allir mæna á fjárfestana og trygging er boðin fram gagnvart bönkunum, sem hafa síðasta orðið. Senn líður að því að fyrirtækin verði, rétt eins og landsbyggðin og borgirnar, óvéfengjanleg eign hins alþjóðlega bankakerfis. Tími allsherjarríkisins er í nánd, og þar með krafan um niðurrif alls þess sem áður var.

Jafnframt þessu er fyrri samstaða að eyðast. Við erum í raun vitni að upplausn samfélagsins og tilkomu miljóna firrtra manna, sem láta sig lítt varða um annarra hag, þrátt fyrir sameiginlega örbirgð og þjáningu. Fjármagnsveldið ræður ekki aðeins yfir efnislegu lífi okkar með stjórn sinni á framleiðsluþáttunum, heldur einnig yfir huglægri tilveru okkar með stjórn sinni á fjarskiptum og fjölmiðlum. Við þessar kringumstæður getur það ráðskast að vild með efnislegar og félagslegar auðlindir okkar, unnið óbætanleg náttúruspjöll og smám saman ýtt manneskjunni til hliðar. Til þess ræður fjármagnsveldið þegar yfir nægilegri tækni. Rétt eins og stjórnendur fjármagnsins hafa tæmt verksmiðjur og tekið völdin af ríkisstjórnum hafa þeir einnig gersneytt vísindin merkingu með því að nýta sér háþróaða tækni til að valda fátækt, eyðileggingu og atvinnuleysi.

Húmanistar þurfa ekki að beita fjálglegum rökum til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni, að tæknilega séu jarðarbúar fullfærir um að ráða skjóta bót á vandamálum af völdum atvinnuleysis, erfiðleika á fæðuöflun, ástands heilbrigðismála, húsnæðismála og menntamála á stórum svæðum víða um heim. Séu möguleikar til þessa ekki nýttir er það einfaldlega vegna þess að tröllaukið gróðabrask fjármagnsveldisins hindrar framkvæmdir.

Fjármagnsveldið er nú þegar komið út fyrir ramma markaðshagkerfisins og er farið að setja samfélaginu reglur um hvernig það skuli bregðast við þeirri ringulreið sem stjórnendur fjármagnsveldisins hafa skapað. Þessari rökleysu er hinsvegar ekki mætt með skynsamlegum rökræðum. Þvert á móti er hið gagnstæða að gerast, því kynþáttahatur, bókstafstrú og öfgastefnur aftan úr forneskju eru að koma fram á sjónarsviðið. Nái þessi nýja rökleysustefna undirtökunum svæðisbundið og í stærri samfélögum minnkar svigrúm framfarasinnaðra afla dag frá degi. Á hinn bóginn hafa miljónir verkamanna nú þegar gert sér grein fyrir óraunsæi hins miðstýrða ríkis annars vegar og fláræði hins kapítalíska lýðræðis hinsvegar. Þess vegna eru verkamenn óðum að rísa gegn spilltum stjórnum stéttarfélaga, rétt eins og almenningur er farinn að tortryggja stjórnmálaflokka og ríkisstjórnir. Nauðsynlegt er að marka þessum hræringum stefnu, því sé það ekki gert festast þær í handahófskenndum og ómarkvissum aðgerðum og verður ekkert ágengt. Brýn nauðsyn er á almennri umræðu um grundvallarhugmyndir manna um framleiðsluþættina.

Frá sjónarmiði húmanista eru framleiðsluþættirnir vinna og fjármagn; gróðabrask og okurlánastarfsemi á þar ekki heima. Eins og mál standa nú berjast húmanistar fyrir gagngerum breytingum á fráleitum tengslum þessara tveggja þátta. Fram til þessa hefur það verið viðtekin hugmynd, að hagnaður sé réttilega fjármagnseigandans og launin komi í hlut verkamannsins. Ójöfnuðurinn er réttlættur með áhættu fjárfestandans, rétt eins og sérhver verkamaður stofni ekki í hættu tilveru sinni í nútíð og framtíð í sveiflum kreppu og atvinnuleysis.

Hér skiptir einnig höfuðmáli stjórnun og ákvarðanataka innan fyrirtækis. Hætt er við að hagnaður sem ekki er nýttur til að efla fyrirtæki eða auka fjölbreytni í framleiðslu og fara inn á nýjar brautir verði notaður í spákaupmennsku. Af þessum sökum verður barátta verkafólks að beinast að því að þvinga fjármagnið til að skila sem mestum afrakstri framleiðslunnar.

Þessu verður ekki komið til leiðar nema með sameiginlegri stjórnun og stefnumótun. Hvernig verður öðruvísi komist hjá stórfelldum uppsögnum og lokun og rýmingu verksmiðjanna? Ranglætið felst í fjárfestingum utan rekstrar, sviksamlegum gjaldþrotum, skuldasöfnun af ásetningi og fjármagnsflótta - en ekki í ágóða sem hægt er að mynda með því að þróa framleiðni. Væri krafist upptöku framleiðslutækjanna í þágu verkafólks, í anda kenninga 19. aldarinnar, ættum við að minnast nýorðins hruns sósíalismans í framkvæmd.

Sé þau andmæli höfð uppi, að með því að setja fjármagninu skorður á sama hátt og vinnunni myndi það leiða til flótta þess til hagkvæmari sviða og svæða, er rétt að hafa hugfast að slíkt gerist að öllum líkindum ekki í náinni framtíð, þar sem rökleysa ríkjandi kerfis leiðir til mettunar og heimskreppu. Þessi andmæli, sem eru í eðli sínu siðlaus, taka ekki tillit til sögulegrar yfirfærslu fjármagnsins til hins alþjóðlega fjármálakerfis. Með þessari tilfærslu fjár hefur sjálfstæðum atvinnurekendum smám saman verið breytt í starfsmenn sem hafa í raun ekkert ákvörðunarvald, hlekki í keðju sem veitir þeim einungis sjálfsforræði í orði kveðnu. Hins vegar gefa atvinnurekendur þessum atriðum nánari gaum eftir því sem kreppan ágerist.

Húmanistar finna hjá sér þörf til að hefjast handa, ekki aðeins á sviði verkalýðsmála, heldur einnig á stjórnmálasviðinu, til að koma í veg fyrir að ríkið verði verkfæri í höndum hins alþjóðlega fjármagnsveldis; þeir vilja ná fram sanngjörnum skiptum milli framleiðsluþáttanna; þeir vilja að samfélagið endurheimti sjálfsákvörðunarréttinn sem af því var tekinn."



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband