Stefnuskjal húmanista


Stefnuskjal húmanista

Húmanistar eru konur og karla þessarar aldar, þessa tímaskeiðs. Húmanistar þekkja sögulegar forsendur húmanisma fyrri alda og taka mið af framlagi mismunandi menningarheima, en ekki einvörðungu þeirrar menningar sem nú lætur mest að sér kveða. Þetta er fólk sem gerir sér grein fyrir því að senn kveður það þessa öld og gengur á vit nýrrar heimsmyndar.
Húmanistar telja sig eiga langa sögu að baki og enn lengri framtíð fyrir höndum. Þeir horfa fram á veginn, til baráttu og sigurs á hinni almennu kreppu sem nú ríkir. Þeir eru bjartsýnir og trúa á frelsi og félagslegar framfarir.
Húmanistar eru alþjóðasinnar og keppa að því að koma á alþjóðlegu mennsku samfélagi. Þeir líta á heiminn sem eina heild og starfa í nánasta umhverfi sínu. Þeir hafna einsleitum heimi, en vilja fjölbreytni: fjölbreytt þjóðerni, tungumál, siði og venjur; fjölbreytni í búsetu, svæðaskipan og sjálfsforræði; fjölbreyttar hugmyndir og markmið; fjölbreytileika trúar, jafnt guðleysingja sem guðrækinna; fjölbreytni í starfi og sköpun.
Húmanistar hafna yfirboðurum; þeir vilja ekki stjórnendur eða yfirmenn af neinu tagi; þeir telja sig hvorki fulltrúa né yfirmenn neinna annarra. Húmanistar vilja hvorki miðstýrt ríki né allsherjarríki eða ríkjaheild er leysi það af hólmi. Húmanistar vilja ekki lögregluheri eða vopnaða flokka manna sem komi í þeirra stað.
Milli baráttumála húmanista og núverandi ástands í heiminum hefur verið reistur múr. Nú er mál til komið að brjóta þennan múr niður. Til þess að svo geti orðið verða húmanistar um allan heim að sameinast.

I. ALÞJÓÐAFJÁRMAGNIÐ
Þetta er Stórisannleikur okkar tíma: Peningar eru allt. Peningar eru ríkisstjórn, peningar eru lög og peningar eru völd. Þeir eru í raun forsenda þess að við höfum í okkur og á. Þeir eru list, heimspeki og trúarbrögð. Menn gera ekkert án peninga, án þeirra er ekkert hægt. Peningar hafa áhrif á persónuleg samskipti, náin tengsl og fjölskyldulíf. Jafnvel hóglát einvera krefst fjár.
Viðhorf okkar til þessa allsherjarsannleika eru þó mótsagnakennd. Þorri manna er ósáttur við að þetta sé svona. Við erum seld undir peningaharðstjórn, sem ekki er huglægt fyrirbæri heldur efnislegt, því hún á sér heiti, talsmenn, framkvæmdaraðila og skýrar reglur.
Nú á dögum eru það ekki lénshagkerfi né landsiðnaður, hvað þá hagsmunir svæðisbundinna hópa sem máli skipta. Nú snýst allt um það, hvernig þessar sögulega tilkomnu heildir laga sig að forskriftum hins alþjóðlega fjármagnskerfis – alþjóðlegs spákaupmennskufjármagns sem sífellt safnast á færri manna hendur. Þannig byggist jafnvel tilvera þjóðríkja á lánstrausti og lánaviðskiptum. Allir mæna á fjárfestana og trygging er boðin fram gagnvart bönkunum, sem hafa síðasta orðið. Senn líður að því að fyrirtækin verði, rétt eins og landsbyggðin og borgirnar, óvéfengjanleg eign hins alþjóðlega bankakerfis. Tími allsherjarríkisins er í nánd, og þar með krafan um niðurrif alls þess sem áður var.
Jafnframt þessu er fyrri samstaða að eyðast. Við erum í raun vitni að upplausn samfélagsins og tilkomu miljóna firrtra manna, sem láta sig lítt varða um annarra hag, þrátt fyrir sameiginlega örbirgð og þjáningu. Fjármagnsveldið ræður ekki aðeins yfir efnislegu lífi okkar með stjórn sinni á framleiðsluþáttunum, heldur einnig yfir huglægri tilveru okkar með stjórn sinni á fjarskiptum og fjölmiðlum. Við þessar kringumstæður getur það ráðskast að vild með efnislegar og félagslegar auðlindir okkar, unnið óbætanleg náttúruspjöll og smám saman ýtt manneskjunni til hliðar. Til þess ræður fjármagnsveldið þegar yfir nægilegri tækni. Rétt eins og stjórnendur fjármagnsins hafa tæmt verksmiðjur og tekið völdin af ríkisstjórnum hafa þeir einnig gersneytt vísindin merkingu með því að nýta sér háþróaða tækni til að valda fátækt, eyðileggingu og atvinnuleysi.
Húmanistar þurfa ekki að beita fjálglegum rökum til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni, að tæknilega séu jarðarbúar fullfærir um að ráða skjóta bót á vandamálum af völdum atvinnuleysis, erfiðleika á fæðuöflun, ástands heilbrigðismála, húsnæðismála og menntamála á stórum svæðum víða um heim. Séu möguleikar til þessa ekki nýttir er það einfaldlega vegna þess að tröllaukið gróðabrask fjármagnsveldisins hindrar framkvæmdir.
Fjármagnsveldið er nú þegar komið út fyrir ramma markaðshagkerfisins og er farið að setja samfélaginu reglur um hvernig það skuli bregðast við þeirri ringulreið sem stjórnendur fjármagnsveldisins hafa skapað. Þessari rökleysu er hinsvegar ekki mætt með skynsamlegum rökræðum. Þvert á móti er hið gagnstæða að gerast, því kynþáttahatur, bókstafstrú og öfgastefnur aftan úr forneskju eru að koma fram á sjónarsviðið. Nái þessi nýja rökleysustefna undirtökunum svæðisbundið og í stærri samfélögum minnkar svigrúm framfarasinnaðra afla dag frá degi. Á hinn bóginn hafa miljónir verkamanna nú þegar gert sér grein fyrir óraunsæi hins miðstýrða ríkis annars vegar og fláræði hins kapítalíska lýðræðis hinsvegar. Þess vegna eru verkamenn óðum að rísa gegn spilltum stjórnum stéttarfélaga, rétt eins og almenningur er farinn að tortryggja stjórnmálaflokka og ríkisstjórnir. Nauðsynlegt er að marka þessum hræringum stefnu, því sé það ekki gert festast þær í handahófskenndum og ómarkvissum aðgerðum og verður ekkert ágengt. Brýn nauðsyn er á almennri umræðu um grundvallarhugmyndir manna um framleiðsluþættina.
Frá sjónarmiði húmanista eru framleiðsluþættirnir vinna og fjármagn; gróðabrask og okurlánastarfsemi á þar ekki heima. Eins og mál standa nú berjast húmanistar fyrir gagngerum breytingum á fráleitum tengslum þessara tveggja þátta. Fram til þessa hefur það verið viðtekin hugmynd, að hagnaður sé réttilega fjármagnseigandans og launin komi í hlut verkamannsins. Ójöfnuðurinn er réttlættur með áhættu fjárfestandans, rétt eins og sérhver verkamaður stofni ekki í hættu tilveru sinni í nútíð og framtíð í sveiflum kreppu og atvinnuleysis.
Hér skiptir einnig höfuðmáli stjórnun og ákvarðanataka innan fyrirtækis. Hætt er við að hagnaður sem ekki er nýttur til að efla fyrirtæki eða auka fjölbreytni í framleiðslu og fara inn á nýjar brautir verði notaður í spákaupmennsku. Af þessum sökum verður barátta verkafólks að beinast að því að þvinga fjármagnið til að skila sem mestum afrakstri framleiðslunnar.
Þessu verður ekki komið til leiðar nema með sameiginlegri stjórnun og stefnumótun. Hvernig verður öðruvísi komist hjá stórfelldum uppsögnum og lokun og rýmingu verksmiðjanna? Ranglætið felst í fjárfestingum utan rekstrar, sviksamlegum gjaldþrotum, skuldasöfnun af ásetningi og fjármagnsflótta - en ekki í ágóða sem hægt er að mynda með því að þróa framleiðni. Væri krafist upptöku framleiðslutækjanna í þágu verkafólks, í anda kenninga 19. aldarinnar, ættum við að minnast nýorðins hruns sósíalismans í framkvæmd.
Sé þau andmæli höfð uppi, að með því að setja fjármagninu skorður á sama hátt og vinnunni myndi það leiða til flótta þess til hagkvæmari sviða og svæða, er rétt að hafa hugfast að slíkt gerist að öllum líkindum ekki í náinni framtíð, þar sem rökleysa ríkjandi kerfis leiðir til mettunar og heimskreppu. Þessi andmæli, sem eru í eðli sínu siðlaus, taka ekki tillit til sögulegrar yfirfærslu fjármagnsins til hins alþjóðlega fjármálakerfis. Með þessari tilfærslu fjár hefur sjálfstæðum atvinnurekendum smám saman verið breytt í starfsmenn sem hafa í raun ekkert ákvörðunarvald, hlekki í keðju sem veitir þeim einungis sjálfsforræði í orði kveðnu. Hins vegar gefa atvinnurekendur þessum atriðum nánari gaum eftir því sem kreppan ágerist.
Húmanistar finna hjá sér þörf til að hefjast handa, ekki aðeins á sviði verkalýðsmála, heldur einnig á stjórnmálasviðinu, til að koma í veg fyrir að ríkið verði verkfæri í höndum hins alþjóðlega fjármagnsveldis; þeir vilja ná fram sanngjörnum skiptum milli framleiðsluþáttanna; þeir vilja að samfélagið endurheimti sjálfsákvörðunarréttinn sem af því var tekinn.

II. LÝÐRÆÐI Í ORÐI OG Á BORÐI
Sjálft skipulag lýðræðisins hefur orðið fyrir gífurlegum áföllum þar sem svo mjög hefur molnað úr hornsteinum þess - skiptingu valdsins, fulltrúakerfinu og virðingu fyrir minnihlutahópum.
Formleg skipting valdsins er mótsögn í sjálfu sér. Nægir þar að líta á uppruna og uppbyggingu hvers valdaaðila í raun til að sanna hve náin tengsl þeirra eru. Öðruvísi getur þetta ekki verið; þeir eru hlutar sama kerfis. Tíðar kreppur þar sem valdhafar taka hver fram fyrir hendurnar á öðrum, spilling og óráðsía, haldast í hendur við almennt ástand í tilteknu landi, efnahag þess og stjórnmálaaðstæður.
Allt frá því að kosningaréttur varð almennur var talið að með því að fólkið fengi að kjósa sér fulltrúa og veita þeim umboð sitt, væri lýðræðið tryggt með kosningunum. Í tímans rás höfum við hins vegar komist að raun um að hér er aðeins um að ræða fyrsta skrefið, þar sem fjöldinn velur sér örfáa fulltrúa en síðan kemur annað skref, þar sem þessir fáu fulltrúar svíkja fjöldann og gerast handbendi hagsmuna sem eru andstæðir umboðinu sem þeim var veitt. Þetta mein hefur grafið um sig innan stjórnmálaflokkanna, þar sem forysta þeirra hefur fjarlægst hagsmuni fólksins. Jafnvel innan flokksveldisins, sjálfrar flokksmaskínunnar, fjármagna voldugir hagsmunaaðilar frambjóðendur og segja þeim fyrir um hvaða málefni þeir skuli styðja. Allt ber þetta vott um djúpstæða kreppu hvað varðar inntak og framkvæmd fulltrúalýðræðisins.
Húmanistar berjast fyrir því að breyta framkvæmd fulltrúafyrirkomulagsins og leggja meiri áherslu á samráð við fólkið, á þjóðaratkvæðagreiðslur og beina kosningu fulltrúa. Þetta skiptir máli vegna þess að í ýmsum löndum gilda lög sem setja sjálfstæða frambjóðendur skör lægra en frambjóðendur stjórnmálaflokka, eða gera mönnum erfitt fyrir með fyrirsláttarreglum og fjárhagsskilyrðum, vilji þeir koma sér á framfæri við samfélagið. Allar stjórnarskrár eða lög sem hefta möguleika manna á að kjósa eða vera kjörnir eru lítilsvirðing við undirstöður raunverulegs lýðræðis, sem er ofar öllum réttarfarslegum tilskipunum. Eigi að gera mönnum jafnt undir höfði ættu fjölmiðlar að þjóna hagsmunum almennings fyrir kosningar með því t.d. að veita frambjóðendum sem eru að koma tillögum sínum á framfæri sömu aðstöðu, öllum jafnt. Á hinn bóginn ætti að setja lög um pólitíska ábyrgð er kvæðu á um að sérhver sá sem kjörinn er til opinbers embættis en stendur ekki við kosningaloforð sín, eigi á hættu að missa embætti sitt eða verða kallaður fyrir rétt.
Þetta er nauðsynlegt, því eins og málum er nú háttað sæta þeir sem ekki standa við fyrirheit sín einungis þeirri refsingu að hljóta ekki endurkosningu. Þetta er allsendis ófullnægjandi því það hindrar þá ekki í að svíkja umboðsgjafa sína. Tæknilegir möguleikar til beins samráðs um brýnustu málefni aukast dag frá degi. Hér er ekki átt við aukna áherslu á skoðanakannanir og aðrar athuganir, sem iðulega eru rangtúlkaðar, heldur um að gera þátttöku alls almennings og beina atkvæðagreiðslu aðgengilega með þróaðri tölvutækni og rafeindamiðlun upplýsinga.Í raunverulegu lýðræði ætti að veita minnihlutahópum tryggingu í fullu samræmi við fjölda þeirra, sem til þessara hópa teljast, og auðvelda ætti þeim þátttöku í samfélaginu með öllum ráðum. Eins og er verða minnihlutahópar einatt fyrir barðinu á útlendingahatri og mismunun af ýmsu tagi, enda þótt þeir sárbiðji um viðurkenningu samfélagsins. Við þessar aðstæður ber húmanistum að hefja málefni minnihlutahópa til jafngildis við það, sem efst er á baugi hverju sinni, og leiða í hvívetna baráttuna gegn fasisma, duldum eða yfirlýstum. Barátta fyrir rétti minnihlutahópa jafngildir baráttu fyrir rétti allra manna.
Einnig tíðkast það nú, að innan þjóðarheildar þurfi heil héruð, landshlutar eða sjálfstjórnarsvæði að þola slíka mismunun gagnvart minnihlutahópum, vegna yfirgangs hins miðstýrða ríkisvalds, sem orðið er að tilfinningasnauðu verkfæri í höndum fjármagnsveldisins. Þessu ætti að linna ef komið væri á fót sambandsstjórnarskipulagi, þar sem raunverulegu pólitísku valdi yrði skilað aftur til þeirra sögulegu menningarsamfélaga sem í hlut eiga.
Umræða um vinnu og fjármagn, raunverulegt lýðræði og markmið valddreifingar í stjórnkerfi ríkja jafngildir því í raun að beina hinni pólitísku baráttu inn á þá leið að skapa nýja samfélagsgerð - sveigjanlegt samfélag í stöðugri aðlögun að breytilegum þörfum fólksins, alþýðu manna, sem nú liggur við köfnun vegna þess hve sjálfstæði hennar er skert.

III. AFSTAÐA HÚMANISTA
Aðgerðir húmanista byggjast ekki á óraunverulegum kenningum um guð, náttúruna, samfélagið eða mannkynssöguna. Þær spretta af lífsnauðsynjum, að forðast sársaukann og leitast við að öðlast vellíðan. Við þessar þarfir bætast svo væntingar manna um framtíðina sem ráðast af reynslu fortíðarinnar og þeim ásetningi að bæta ríkjandi ástand. Mannleg reynsla er ekki aðeins afleiðing náttúruvals eða samsafnaðra náttúrulegra og eðlisfræðilegra staðreynda, lögmáls er gildir um allar dýrategundir, heldur einnig og jafnframt félagsleg og einstaklingsbundin reynsla, sem beinist að því að yfirstíga stundarsársauka og koma í veg fyrir framtíðarþjáningu. Mannlegt starf, sem eflist í félagsvinnu, breytist frá kynslóð til kynslóðar í stöðugri baráttu við að bæta náttúruleg skilyrði, jafnvel líkamann sjálfan. Því er rétt að skilgreina manninn sem sögulega veru gædda félagslegri hæfni, sem er fær um að breyta heiminum og jafnvel eigin eðli. Í hvert skipti sem einstaklingur eða hópur manna beitir aðra þvingunum og ofbeldi tefur það framgang sögunnar og gerir fórnarlömbin að „náttúrulegum“ hlutum. Náttúran hefur engan ásetning. Þegar við heftum frelsi og áform einhvers er sá hinn sami gerður að „náttúrulegum“ hlut, nytjahlut.
Framvinda mannlegrar þróunar verður, þótt hægt gangi, að umbreyta náttúrunni og samfélaginu og gera útlægt ofbeldi það og ánauð sem sumir menn beita aðra. Þegar þetta gerist munum við stíga skrefið frá forsögu mannkyns til raunverulegrar sögu þess. Þangað til getum við ekki tekið mið af neinu öðru né æðra gildi en manninum sjálfum, fullnægðum og frjálsum. Þessvegna gera húmanistar að kjörorði sínu: „Ekkert ofar manninum og enginn maður neðar öðrum“. Ef við teljum guð, eða ríkið, peninga eða hvaðeina annað, vera það sem við virðum mest, þá er maðurinn settur skör lægra og þar með skapast skilyrði fyrir því að honum sé stjórnað eða jafnvel fórnað. Húmanistar gera sér ljósa grein fyrir þessu. Húmanistar gera verið hvort heldur guðleysingjar eða trúhneigðir menn. Heimssýn þeirra og gjörðir eru þó ekki reistar á trúariðkun þeirra eða trúleysi. Þeir taka mið af manninum og nærtækustu þörfum hans. Öðlist þeir trú á að í baráttu sinni fyrir betri heimi hafi þeir uppgötvað einhvern þann tilgang er þoki manninum eitthvað áleiðis á braut framfara og aukins þroska, þá beita þeir trú þessari eða uppgötvun í þágu alls mannkyns.
Húmanistar telja að grundvallarviðfangsefnið sé þetta: að vita hvort maður vill lifa lífinu og að ákveða við hvaða skilyrði.
Húmanistum býður við hvers konar ofbeldi, hvort heldur líkamlegu, efnahagslegu, trúarlegu eða hugmyndafræðilegu ofbeldi, ellegar misrétti kynja eða kynþátta. Húmanistar hafna hverskonar mismunun, dulinni eða yfirlýstri.
Húmanistar hneigjast ekki til ofbeldis. Þeir eru hins vegar fjarri því að vera hugleysingjar, né eru þeir hræddir við að bjóða ofbeldinu birginn, vegna þess að slík gjörð felur í sér tilgang. Húmanistar vilja lifa í nánum tengslum við samfélagið. Þeir setja fram raunhæfa kosti og eru þess vegna sjálfum sér samkvæmir.
Þannig eru skýr mörk milli húmanisma og andhúmanisma. Húmanisminn metur vinnuna ofar veldi fjármagnsins, raunverulegt lýðræði ofar lýðræði í orði kveðnu, dreifingu valdsins ofar miðstýringu, jöfnuð ofar mismunun, frelsi ofar kúgun, tilgang lífsins ofar uppgjöf, samsekt og firringu.
Húmanisminn sækir styrk sinn í frelsi mannsins til að velja og siðfræðin, sem hann er reistur á, er hin eina raunhæfa á okkar tímum. Hann setur traust sitt á manninn og frjálsa ákvörðun hans og greinir á milli mistaka og varmennsku, þess sem veit ekki betur og svikarans.

IV. FRÁ NÁTTÚRULEGUM HÚMANISMA TIL MEÐVITAÐS HÚMANISMA
Húmanisminn á að virkja grasrót samfélagsins, með þátttöku í lífi fólks og störfum, breyta einföldum mótmælaaðgerðum í meðvitað afl, sem beinist að breytingum á sjálfu efnahagsskipulaginu.
Að því er snertir þá er berjast fyrir málstaðnum innan stéttarfélaga og pólitískra framfaraflokka þá mun barátta þeirra eflast og verða heildstæðari eftir því sem þeim tekst að hafa áhrif á leiðtoga samtaka sinna og fá félaga sína til liðs við stefnu sem setur grundvallarmarkmið húmanismana í fyrsta sæti, ofar öllum skammtímamarkmiðum.
Hin fjölmenna stétt námsmanna og kennara ber að öllu jöfnu næmt skynbragð á óréttlæti og þegar kerfiskreppan snertir hana, mun hún koma á framfæri vilja sínum til breytinga. Fjölmiðlafólk, sem er í tengslum við harmleiki hversdagslífsins, er einnig í aðstöðu til að starfa í samræmi við stefnu húmanista á saman hátt og ýmsir menntamenn sem sýna í verki andstöðu sína við kröfur ómanneskjulegs kerfis.
Sé horft til staðreynda mannlegra þjáninga er fjölmargt hægt að gera og ýmis viðfangsefni tiltæk, sem bjóða fólki að takast á hendur óeigingjarnt starf í þágu hinna útskúfuðu og þeirra sem er mismunað. Samtök, hópar sjálfboðaliða og stór hluti almennings er stundum virkjaður til jákvæðs framlags. Án efa er slíkt framlag til þess fallið að afhjúpa vandamálin og varpa ljósi á þau. Á hinn bóginn stefna þessir hópar ekki að því með störfum sínum að breyta þeirri samfélagsskipan sem orsakaði vandamálin. Aðgerðir þeirra sverja sig meira í ætt við líknarstarfsemi en meðvitaðan húmanisma. Þó felast í þessari viðleitni til góðra verka aðgerðir og andóf, sem hægt væri að efla og beita af meiri ákveðni og í víðara samhengi.

V.HERBÚÐIR ANDHÚMANISTA
Þau öfl sem fjármagnsveldið hefur yfir að ráða herða enn hálstakið á þjóðum heims. Sundurleit öfl leysast úr læðingi og sækja sér styrk í ríkjandi öryggisleysi, sem þau eru lagin við að nýta sér, og beina andúð að þeim er ekkert hafa til saka unnið. Grundvöllur þessarar nýfasísku stefnu er djúpstæð afneitun mannlegra gilda. Vistverndarstefna á villigötum tekur upp hanskann fyrir náttúruna á kostnað mannsins. Samkvæmt þessari stefnu eru vistfræðileg slys ekki slæm vegna þess að þau stofni mannkyni í hættu, heldur vegna þess að maðurinn hafi gerst tilræðismaður við náttúruna. Sumar þessara kenninga telja manninn sjálfan mengaðan og því sé hann mengunarvaldur í náttúrunni. Þessir aðilar líta svo á að betra hefði verið ef læknavísindunum hefði mistekist að ráða bug á fjölda sjúkdóma og lengja meðalævi mannsins. „Jörðin númer eitt !!“ hrópa þeir sefasýkislega svo að minnir á vígorð nasistanna forðum. Þá er stutt í mismunun gagnvart mengandi menningu eða gagnvart útlendingum, sem taldir eru menga þjóðlífið. Þessar stefnur flokkast undir andhúmanisma því þær grundvallast á mannfyrirlitningu. Forvígismenn þeirra fyrirlíta sjálfa sig og endurspegla þannig þær niðurrifs- og sjálfsvígstilhneigingar, sem nú eru svo mjög í tísku.
Verulegur hluti skynugs fólks styður þó einnig umhverfisvernd, vegna þess að það gerir sér ljóst hve alvarleg vandamál er hér um að ræða. Ef vistverndarmenn tækju upp stefnu húmanismans, yrði baráttunni beint gegn þeim sem valdir eru að hörmungunum, það er að segja gegn fjármagnsveldinu og víðfeðmri keðju eyðileggjandi iðnrekstrar og atvinnustarfsemi, sem er nátengd hergagnaframleiðslubákninu. Áður en menn fara að hafa áhyggjur af selunum, ættu þeir snúa sér að hungrinu í heiminum, offjölgun mannkyns, barnadauða, sjúkdómum, skorti á hreinlætisaðstöðu og húsnæði í mörgum heimshlutum. Þeir ættu að vinna gegn atvinnuleysi, arðráni, kynþáttahatri, mismunun og skorti á umburðarlyndi í tæknilega þróuðum heimi þar sem menn eru að setja vistkerfið úr skorðum í nafni glórulauss hagvaxtar.
Það er óþarfi að fjölyrða um hægri öflin sem pólitískt verkfæri andhúmanismans. Þar hefur varmennskan gengið svo langt að hægri menn kynna sig jafnvel sem fulltrúa „húmanisma“. Á hægri vængnum má einnig nefna slóttuga klerka, sem þykjast byggja kenningar sínar á svokölluðum „guðfræðilegum húmanisma“. Þessi tegund manna stóð forðum að trúarbragðastyrjöldum og rannsóknarrétti og tortímdi höfundum vestræns húmanisma á fyrri öldum. Nú eigna klerkarnir sér dyggðir fórnarlamba sinna og þykjast þess jafnvel umkomnir að „fyrirgefa frávik“ húmanista fyrri tíma. Svo óprúttnir eru andhúmanistar við að eigna sér orð þeirra að þeir skirrast ekki við að kalla sjálfa sig húmanista.
Andhúmanistar hafa aragrúa aðferða, tækja og tjáningarforma á takteinum. Þó ætti nánari útlistun á áróðursbrögðum þeirra að auka líkurnar á að ýmsir góðviljaðir og auðtrúa húmanistar endurskoði afstöðu sína og tilgang félagslegs starfs síns.

VI. BARÁTTUSVIÐ HÚMANISTA
Helstu baráttusvið húmanista eru atvinnumál, húsnæðismál, verkalýðsmál, stjórnmál og menningarmál og markmiðið er að skapa félagslega hreyfingu. Á þennan hátt greiðir húmanisminn fyrir því að ýmis framfarasinnuð öfl, hópar og einstaklingar geti tekið þátt í baráttunni án þess að týna sérkennum sínum og sérstökum eiginleikum. Slík hreyfing miðar að því að stuðla að sameiningu afla, sem í vaxandi mæli verði fær um að hafa áhrif á fjölmenna þjóðfélagshópa og móta umbreytingu samfélagsins með aðgerðum sínum.
Húmanistar eru engir einfeldningar og vilja ekki slá um sig með yfirlýsingum sem betur hefðu hæft rómantík fyrri tíma. Þeir líta ekki svo á að tillögur þeirra séu albesta túlkun félagslegrar vitundar, né heldur að samtök þeirra séu hafin yfir gagnrýni. Húmanistar látast ekki vera fulltrúar neins meirihluta. Þeir starfa einfaldlega eins og þeim virðist réttlátt og stefna að umbreytingum sem þeir telja æskilegar og mögulegar hér og nú.

© 1993, Húmanistahreyfingin.. Allur réttur áskilinn..


AF ÖLLU HJARTA

Grein úr Morgunblaðinu
Söfnun til kaupa á lækningatækjum fyrir Landsspítalann vekur upp spurningar um mannréttindi og hvað eigi að ganga fyrir þegar skattfénu er ráðstafað.

Nýlega lýsti biskupinn yfir Íslandi áformum um fjársöfnun á vegum þjóðkirkjunnar til að kaupa lækningatæki fyrir Landsspítalann. Af þessu tilefni sendi Húmanistaflokkurinn frá sér yfirlýsingu þar sem lögð var áhersla á að heilbrigðisþjónusta er fæðingarréttur hvers manns sem stjórnvöldum ber skylda til að tryggja. Það er því skref aftur á bak ef kirkjan fer að safna peningum til að létta þessari skyldu af ríkinu. Með þessu er Húmanistaflokkurinn þó ekki að draga í efa þann velvilja sem lá að baki áforma biskupsins.

Íslendingar eru hjálpsamir
Þessi atburður vekur mig til hugsunar um hve Íslendingar eru örlátir og fúsir til að rétta hjálparhönd þegar fólk er í nauðum statt. Sveltandi börn í fjarlægum löndum og fórnarlömb snjóflóðs hér á landi snerta okkur og þá er sjálfsagt að veita þá hjálp sem hver og einn getur. Fjölmörg dæmi eru um að samstillt átak hafi lyft Grettistaki þegar neyðin var mikil.

Skattféð í nauðsynjar
Íslendingar eru hins vegar ekki eins fúsir að borga skattana sem á þá eru lagðir eins og þeir eru reiðubúnir að hjálpa í fjársöfnunum. Skyldi það hafi með það að gera að í vaxandi mæli er skattfénu varið til þess sem er fjarri þvi að vera nauðsynjar og eða tengist grundvallar réttindum fólks? Skorið er niður í heilbrigðiskerfinu og framlög til menntunar. Gamlir og lasburða eru látnir mæta afgangi á meðan fjármagnseigendum er tryggður þeirra hlutur. Hver man ekki eftir þegar forsætisráðherrann lýsti yfir að innistæður yrðu tryggðar uppí topp en þær voru að mestu í eigu örfárra einstaklinga sem hver um sig átti gýfurlegar fjárhæðir á bankabókum. Stjórnmálamenn og toppar í kerfinu hafa tryggt sér lífeyri sem er margfaldur á við það sem venjulegt fólk fær sem aukinheldur rýrnar stöðugt. Hundruðir milljarða fara í að endurreisa ofvaxið bankakerfi og hundrað milljarðar fara á hverju ári í vexti af skuldum sem ríkið hefur tekið á sig. Vaðlaheiðargöng ganga fyrir sjúkrarúmum fyrir aldraða. Skyldi nokkurn undra að það gæti nokkurrar ógleði þegar skattarnir eru greiddir.

Menntun og heilbrigði mikilvægast
Húmanistaflokkurinn telur að mikilvægustu gildi þjóðfélagsins séu heilbrigði og menntun og grundvallar lífsgæði fólks. Því beri að láta menntun fólks og heilsu ganga fyrir umönnun banka og eignafólks. Aðhlynning gamals fólks og öryrkja á að ganga fyrir ofurlífeyri þeirra sem hafa skammtað sér hann sjálfir. Menntun á að vera fyrir alla og ókeypis og ganga fyrir jarðgöngum, vaxtagreiðslum og verðbótum.

Út úr blindgötunni
Nú til dags eru hagsmunir peninga og valdamanna látnir ganga fyrir við útdeilingu skattfjárins, þetta er lýsandi fyrir gildismatið sem mótar þjóðfélagið núna. Það gengur þó þvert gegn þeirri afstöðu sem birtst hjá fólki þegar það hefur tækifæri til að hjálpa nauðstöddum. Þessi mótsögn þegar við stjórnumst af gildismati peninga- og einstaklingshyggju og framkvæmum gegn betri vitund er aflvaki óreiðu og togstreitu þeirrar sem við upplifum nú. Breyting á ríkjandi gildismati - sem birtist í skýrum áformum um mennska framtíð og forgangsröð sem er samboðin mannlegri reisn er leiðin út úr blindgötunni.


7. Hin mennska breyting - úr Bréf til vina minna eftir Silo

7. Hin mennska breyting.
Heimurinn er að breytast mjög hratt og margt það, sem fyrir skömmu var trúað blint á, getur ekki staðist nú. Aukinn hraði atburða hefur í för með sér óstöðugleika og upplausn í öllum þjóðfélögum, hvort sem þau eru rík eða snauð. Þegar slíkar breytingar á kringumstæðum eiga sér stað, þá hætta jafnt hin hefðbundnu stjórnvöld og þjónar þeirra "mótarar almenningsálitsins", sem og hinir gömlu baráttumenn að vera viðmiðun fyrir fólk.
Engu að síður er að vakna til lífsins nýr næmleiki sem á við hinn nýja tíma. Þetta er næmleiki sem meðtekur heiminn sem eina heild og er meðvitaður um að vandamál fólks á sérhverjum stað munu á endanum gera vart við sig á öðrum, jafnvel þó mikil fjarlægð sé á milli þeirra. Samskiptin, tilfærsla auðs og hinir hröðu flutningar stórra hópa manna frá einum punkti til annars, allt þetta sýnir hvernig ferli heimsins í eina heild fer vaxandi.
Einnig eru að birtast ný viðhorf til aðgerða þegar ljóst er hve mörg vandamál eru heildræn. Það er greinilegt að starf þeirra sem vilja betri heim ber árangur ef það er látið vaxa frá því umhverfi þar sem hver og einn hefur einhver áhrif. Þetta er frábrugðið öðrum tímum þar sem hulið var með innantómum frösum hvernig leitað var eftir ytri viðurkenningu. Í dag er byrjað að meta auðmjúka og einlæga vinnu, þar sem ekki er reynt að blása út eigin persónu heldur breyta sjálfum sér og hjálpa til þess að það gerist í nánasta umhverfi fjölskyldu, vinnu og tengsla.
Þeim sem raunverulega þykir vænt um fólk vanvirða ekki slíka vinnu, þó hún sé ekki unnin með miklum fyrirgangi. Á hinn bóginn er þetta óskiljanlegt fyrir sérhvern tækfærissinna, sem mótaðist í hinu gamla landslagi leiðtoga og fjölda, í landslagi þar sem hann lærði að nota aðra til að skjóta sér á tind þjóðfélagsins.
Þegar einhver sannreynir að kleyfhugaháttur einstaklingshyggjunnar hefur enga útgönguleið og segir öllum þeim sem hann þekkir opinskátt frá því að það er þetta sem honum finnst og hann gerir þetta án hinnar fáránlegu hræðslu við að vera misskilinn, þegar hann nálgast aðra, þegar hann sýnir áhuga á hverjum og einum en ekki á nafnlausum fjölda, þegar hann byrjar að skiptast á skoðunum og fer að vinna með öðrum, þegar hann sér ljóslega þörfina á að margfalda þetta starf endurtengingar í þjóðfélagsvef sem aðrir hafa eyðilagt, þegar hann finnur að jafnvel "smávægilegasta" manneskjan hefur meiri mennsk gæði en einhver sálarleysingi sem hefur verið settur á tind augnabliksins... Þegar allt þetta gerist hjá honum er það vegna þess að innra með honum byrjar að tala að nýju Tilgangurinn sem hefur hreyft þjóðirnar þegar þær voru í mestri þróun. Þessi Tilgangur sem svo oft hefur verið rangfærður og svo oft gleymdur en hefur ávallt fundist aftur þegar sagan hefur breytt gangi sínum.
Ekki er einungis að sýna sig nýr næmleiki, ný stefna og framkvæmd aðgerða heldur jafnframt nýtt siðferðisviðhorf og nð taktísk staða gagnvart lífinu. Ef einhver ýtti mér til að skýra nákvæmar það sem minnst hefur verið á fyrr, myndi ég segja, jafnvel þó þetta hafi verið endurtekið í þrjár þúsundir ára, að fólk finni nú á nýjan hátt fyrir nauðsyn þess og hinum siðferðilega sannleik að koma fram við aðra eins og maður vill að komið sé fram við sig. Ég myndi bæta við að í dag sé leitast við að framkvæma nokkurskonar hegðunarlögmál:
1. Ákveðið samræmi, reyna að skipuleggja hina mikilvægu þætti í lífinu, sinna þeim öllum og forðast að sumir þeirra fari fram úr og aðrir aftur úr um of.
2. Ákveðin vaxandi aðlögun, sem vinnur í þágu framþróunar (ekki bara hins líðandi augnabliks) og skeyta lítið um hin mismunandi form neikvæðrar þróunar.
3. Ákveðið tækifæri, hörfa frammi fyrir miklum krafti (ekki frammi fyrir öllum óðægindum) og sækja fram þegar úr honum dregur.
4. Ákveðin samheldni, safna saman gjörðum sem gefa tilfinningu um einingu, vera sáttur við sjálfan sig og hafna þeim sem valda mótsögnum og sem eru skráðar sem ósamræmi milli þess sem maður hugsar, finnur og gerir.

Ég held að ekki sé nauðsynlegt að útskýra hvers vegna ég segi að "fundið sé fyrir nauðsyn þess og hinum siðferðilega sannleik að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við sig", frammi fyrir þeim mótmælum að hegðun sé ekki á þennan hátt í dag. Né held ég að við ættum að vera með lengri útskýringar á því hvað 'framþróun' er eða 'vaxandi aðlögun' og ekki bara endanleg aðlögun. Hvað varðar að að hörfa eða sækja fram gagnvart miklum eða minnkandi krafti, myndum við án efa verða að treysta á nákvæmar viðmiðanir sem við höfum ekki minnst á. Að lokum, þetta með að safna upp einingargjörðum frammi fyrir mótsagnakenndum kringumstæðum sem við búum við og upplifum dag hvern eða á gagnstæðan hátt að hafna mótsögninni, virðist erfitt hvernig sem á það er litið.
Það er satt, en ef við förum yfir það sem hefur verið sagt hér að ofan, myndum við sjá að við höfum minnst á alla þessa hluti í því samhengi að vera ákveðin hegðun, sem er að verða sterk þrá í dag, allt öðruvísi en sú á öðrum tímum. Að lokum.
Ég hef reynt að setja fram nokkur sérstök einkenni sem eru að birtast, sem á við nýjan næmleik, nýja gerð samskipta milli manna og nýja gerð persónulegrar hegðunar sem að mér virðist hefur gert meira en að vera einföld gagnrýni á ástandið. Við vitum að gagnrýni er alltaf nauðsynleg, en það sem er enn nauðsynlegra er að gera sjálf eitthvað öðruvísi en það sem við erum að gagnrýna.

Með þessu sendi ég ykkur mínar bestu kveðjur
Silo


6. Saga fyrir þá sem vilja verða framkvæmdastjórar - úr Bréf til vina minna eftir Silo

6. Saga fyrir þá sem vilja verða framkvæmdastjórar
"Samfélagið sem er að skapast mun loksins færa okkur allsnægtir. Auk stórkostlegra efnislegra framfara mun mannkynið verða frjálst. Ekki mun lengur vera þörf á einhverri gamaldags 'samstöðu', þeirri fátæktardellu, því þegar hér er komið sögu eru flestir á einu máli um að peningar eða eitthvað í þeim dúr geti leyst nærri öll vandamál. Við munum því beina öllum kröftum okkar, hugsun og draumum í þá átt. Með peningum má kaupa sér góðan málsverð, fallegt heimili, ferðalög, afþreyingu, tæknileg leiktæki og fólk sem gerir það sem óskað er. Loksins verður hagkvæm ást, hagkvæm list og hagkvæm sálfræði til að leysa þau vandamál sem eftir gætu verið. Jafnvel þau vandamál verða fljótlega leyst með nýjum uppgötvunum í taugaefnafræði og erfðaverkfræði.
Í þessu þjóðfélagi allsnægtanna munum við sjá sjálfsmorðstíðni, áfengissýki, vímuefnaneyslu, glæpi, og aðra þætti sem truflað gætu svefn borgaranna, deyja smám saman út - eins og við erum fullvissuð um muni raunar gerast einhvern daginn mjög fljótlega í efnahagslega þróuðum samfélögum. Misrétti mun líka hverfa og samskipti allra munu aukast. Enginn mun lengur verða að velta sífellt fyrir sér þarflausum spurningum um tilgang lífsins, einmanaleika, veikindi, elli eða dauða, því með viðeigandi námskeiðum og lítilsháttar meðferð má setja loku fyrir slík viðbrögð sem ávallt hafa hamlað hagkvæmni og framleiðni samfélaga. Allir treysta öllum, því samkeppni í vinnu, námi og sambúð skapar þroskuð tengsl á milli manna.
Að lokum deyr hugmyndafræðin út og verður ekki lengur notuð til að heilaþvo fólk. Auðvitað hindrar enginn mótmæli eða óánægju neins vegna minniháttar málefna, ef notaðar eru viðeigandi tjáningarleiðir. Borgararnir mega koma saman (af heilbrigðisástæðum í litlum hópum) svo fremi sem þeir rugla ekki saman frelsi og taumleysi, og geta jafnvel tjáð sig utandyra (auðvitað með þeim skilyrðum að þeir trufli ekki aðra með hávaða, mengun eða kynningarefni sem gæti spillt útliti sveitarfélagsins, eða hvað sem það verður kallað í framtíðinni).
En best af öllu verður samt þegar lögregluvakt verður ekki lengur nauðsynleg. Í stað hennar tekur hver borgari ábyrgð á því vernda hina gegn lygum hugmyndafræðilegra hryðjuverkamanna. Borgararnir verða svo þjóðfélagslega ábyrgir að ef vart yrði við hugmyndafræðilegar lygar hryðjuverkamanna gengju þeir beint til fjölmiðla svo hægt væri að vara aðra borgara við hættunni. Borgararnir munu skrifa snjallar ritgerðir sem verða samstundis gefnar út. Þeir munu setja á laggirnar ráðstefnur þar sem fágað skoðanamyndandi fólk mun útskýra fyrir skammsýnu fólki að ennþá væri það í greipum hinna dimmu afla efnahagsmiðstýringar, valdboðsstefnu, andlýðræðis og trúarofstækis.
Ekki verður einu sinni nauðsynlegt að eltast við þá sem raska ró borgaranna, því fjölmiðlun verður svo hagkvæm, að enginn mun vilja koma nálægt þeim vegna hættunnar á að mengast af hugmyndafræði þeirra.
Í verstu tilfellunum verða þeir "endurforritaðir" á hagkvæman hátt. Þeir munu þakka opinberlega fyrir að vera komnir í þjóðfélagið á ný og lofa kosti þess að þekkja á ný takmörk frelsisins.
Hinir dugmiklu verjendur borgaranna eru venjulegt fólk sem kann best við sig í nafnleysi fjöldans, þegar þeir eru ekki uppteknir við að sinna skyldum sínum, þeir verða þekktir í þjóðfélaginu fyrir siðgæði sitt, gefa eiginhandaráritanir og eins og eðlilegt er njóta þeir ríflegs endurgjalds.
Fyrirtækið verður að stórri fjölskyldu sem ýtir undir hæfni, mannleg samskipti og tómstundaiðju. Vélmenni hafa rutt líkamlegri vinnu úr vegi. Að vinna fyrir Fyrirtækið heima hjá sér verður hin sanna persónulega fullnæging einstaklingsins.
Þannig mun samfélagið ekki hafa þörf fyrir önnur samtök en þau sem fyrirfinnast i Fyrirtækinu. Maðurinn, sem ávallt hefur barist fyrir vellíðan sinni, hefur að lokum skapað himnaríki á jörðu. Þar sem hann ferðast milli pláneta hefur hann fundið hamingjuna. Þar verður hann samkeppnishæft ungmenni, hann verður tælandi, ágjarn, sigursæll og raunsær, umfram allt raunsær ...stjórnandi Fyrirtækisins.


5. Breytingar og tengsl fólks - úr Bréf til vina minna eftir Silo

5. Breytingar og tengsl fólks
Sameining markaða í stærri svæði, sem og kröfur um sjálfstæði héraða og þjóðarbrota ýta undir upplausn þjóðríkisins. Fólksfjölgunarsprengingin í fátækari heimshlutum er að rífa á saumunum allar tilraunir til þess að stjórna fólksflutningum. Stórfjölskylda sveitanna er að brotna niður, og hvetur yngri kynslóðina til ofsetinna borganna. Borgarfjölskylda iðnaðar- og síðiðnaðartímans hefur skroppið saman í algjört lágmark, meðan risaborgirnar verða samtímis að gleypa óheyrirlegan straum fólks sem mótaðist í óskyldu landslagi menningar. Efnahagskreppur og umbreytingar á framleiðsluaðferðum skapa skilyrði fyrir kynþáttahatur og annarskonar mismunun að blossa upp að nýju.
Mitt í öllu þessu leiðir sívaxandi hraði tæknibreytinga og fjöldaframleiðslu til þess að vörur verða úr sér gegnar næstum áður en þær ná til neytenda. Þessi stöðuga endurnýjun hluta á sér samsvörun í þeim óstöðugleika og þeirri aflögun sem svo ljóslega má sjá í mannlegum tengslum í dag. Þegar hér er komið sögu hefur hin hefðbundna 'samstaða', arftaki þess sem einhverntíma var kallað 'bræðralag', misst alla þýðingu. Félagar okkar í vinnunni, í skólanum, í íþróttunum... jafnvel gamlir vinir taka nú á sig einkenni keppinauta. Kærustupör berjast um yfirráð, báðir aðilar reikna út í upphafi sambandsins, hvort borgi sig frekar að vera saman eða búa aðskilin.
Aldrei fyrr hefur heimurinn verið jafn samtengdur, engu að síður líða einstaklingar hvern dag meir af þjakandi tengslaleysi. Aldrei fyrr hafa borgarmiðstöðvarnar verið svo fjölmennar, þrátt fyrir það talar fólk um "einmanaleika" sinn. Aldrei hefur fólk þarfnast mannlegrar hlýju jafn mikið og nú, en að reyna að nálgast annan í anda hjálpsemi og vinsemdar vekur aðeins grunsemdir.
Svona hefur fólkið okkar lánlausa verið yfirgefið, í þessari klípu og megnri óhamingju er hverjum einangruðum einstaklingi komið til að trúa að hann eða hún hafi einhverju mikilvægu að tapa - loftkenndu "einhverju" sem allur afgangur mannkyns líti ágirndaraugum! Undir þessum kringumstæðum er hægt að segja fólki eftirfarandi sögu, eins og verið væri að tala um óyggjandi raunveruleika...


4. Framtíðartilraunir - úr Bréf til vina minna eftir Silo

4. Framtíðartilraunir
Í dag, eins og raunin hefur verið í gegnum söguna, mun ríkjandi fyrirkomulagi einfaldlega verða varpað fyrir róða hvenær sem það reynist nauðsynlegt, fyrir annað sem á að "bæta úr" annmörkum hins fyrrnefnda. En á meðan mun auðurinn stöðugt vaxa í höndum æ valdameiri minnihluta.
Samtímis er ljóst að hvorki framþróunin né hinar lögmætu vonir fólks munu líða undir lok. Því er það að við munum brátt sjá síðustu barnalegu fullyrðingarnar um að hugmyndafræði, árekstrar, stríð efnahagskreppur og félagslegt umrót heyri senn sögunni til. Og þar sem enginn blettur jarðarinnar er ótengdur öðrum hlutum, kemur mjög fljótt að því að staðbundnar lausnir, jafnt sem staðbundin átök, ná til alls heimsins. Eitt er að auki ljóst: Það sem hingað til hefur ráðið ríkjum mun ekki lengur geta viðhaldist - hvorki núverandi fyrirkomulag yfirdrottnunar, né baráttuaðferðirnar gegn því.


3. Þjóðfélagsþróunin - úr Bréf til vina minna eftir Silo

3. Þjóðfélagsþróunin
Með hliðsjón af númerandi kringumstæðum, er e.t.v. einhvers virði að velta stuttlega fyrir sér þessum kosti, sem á líðandi stundu er haldið fram sem lyklinum að betri heimi. Að sönnu hafa þó nokkrar efnahagslegar tilraunir verið gerðar, með fremur ósannfærandi niðurstöðum. Þrátt fyrir þetta er okkur sagt að þessi síðasta tilraun beri í sér einu lausnina á grundvallarvanda okkar. Engu að síður eru nokkrar hliðar þessarar nýju tillögu sem er ofar skilningi einhverra okkar.
Í fyrsta lagi er spurningin um lögmál efnahagslífsins. Það gæti virkað sennilega að, eins og í náttúrunni sé til ákveðið vélgengi sem sjálfkrafa stýri framþróun þjóðfélagsins, sé því leyft að ganga óhindrað. Hvað sem því líður, finnst okkur erfitt að kyngja þeirri röksemdafærslu að eitthvert mannlegt ferli, og sér í lagi efnahagsferlið lúti sömu lögmálum og náttúruleg fyrirbæri. Þvert á móti, trúum við að mannlegt atferli sé ekki-náttúrulegt, að það einkennist þess í stað af ætlun, sé félags- og sögulegt. Þessi einstaklega mannlegu fyrirbæri birtast ekki í náttúrunni almennt, eða hjá öðrum dýrategundum. Þar af leiðandi, þar sem efnahagsleg ferli endurspegla mannlega ætlun og áhuga, sjáum við í ljósi atburða ekkert sem styður þá trú að þeir sem stýri vegfarnaði mannkyns láti sig varða að yfirstíga erfiðleika annarra sem njóta ekki sömu forréttinda og þeir sjálfir.
Í öðru lagi virðist sú fullyrðing að þjóðfélögin hafi þróast þrátt fyrir hið mikla bil sem hefur alltaf skilið ríkidæmi þeirra sem "áttu" frá hinum sem "áttu ekki", langt frá því að vera sannfærandi. Sagan sýnir að þjóðfélögin þróuðust þegar fólkið krafðist réttar síns frá ríkjandi valdhöfum og að félagsleg þróun hefur svo sannarlega ekki stafað af því auður sem einn geiri þjóðfélagsins hafði safnað saman "seytlaði niður" á sjálfvirkan máta.
Í þriðja lagi virðist full langt gengið að halda fram sem fyrirmyndum ákveðnum þjóðfélögum, þar sem þessa svokallaða frjálsa markaðkerfis er beitt, og náðst hafa góð lífskjör. Þessi þjóðfélög hafa, þegar öllu er á botninn hvolft, staðið fyrir útbreiðslustríðum gegn öðrum þjóðfélögum. Þau hafa þröngvað nýlendustefnu og ný-nýlendustefnu uppá hin síðarnefndu. Þau hafa hlutað niður þjóðir og heilu álfurnar. Þau hafa með fulltingi ofbeldis og misréttis heimt skatta. Að lokum hafa þau fært sér í nyt ódýrt vinnuafl veikari efnahagskerfanna, meðan þau samtímis þröngvuðu óhagstæðum viðskiptakjörum uppá hin síðarnefndu. Einhverjir munu andmæla og segja að þetta háttalag sé einfaldlega það sem kallað er "hagstæðir samningar". Samt sem áður geta þeir ekki haldið þessu fram og staðhæfa síðan samtímis að efnahagsleg þróun þessara landa sem "standa framar" hafi átt sér stað óháð sérstökum tengslum við önnur lönd sem stóðu höllum fæti.
Í fjórða lagi er oft minnst á afrek í vísindum og tækni og það "frumkvæði" sem hinn frjálsi markaður" fóstri. En það er ljóst að vísinda- og tæknileg framþróun hófst þegar mannveran fann upp kylfur, vogarstangir, eldinn o.s.frv., og að þessi þróun hefur gengið sinn veg í ferli söglulegrar samsöfnunar, sem litlu hefur látið sig skipta sérstök efnahagsleg form eða einhverj markaðslögmál.
Ef á hinn bóginn þeir vilja meina að ríkari efnahagskerfin laði til sín stærstan hluta hæfileikafólksins, að þau hafi efni til að borga fyrir tæki og rannsóknir og að síðustu að þau geti látið í té meiri hvatningu í formi meiri umbununar, þá ætti líka að geta þess að þetta hefur alltaf verið svo, allt frá því í fornöld, og einskorðast hvorki við, né stafar af ákveðinni tegund efnahagskerfis. Hér hefur öllu frekar safnast saman á ákveðnum stað og á ákveðinni stundu - óháð því hvernig þetta ríkidæmi er til komið - ofgnótt auðlegðar.
Í fimmta lagi eimir enn eftir af þeim hugsunarhætti að skýra velferð hinna "þróaðri" þjóðfélaga sem ávöxt ákveðinna óáþreifanlegrara "gjafa" náttúrunnar - sérstakra hæfileika, borgaralegum dyggðum, dugnaði, skipulagi og þess háttar. Þetta er, samt sem áður, ekki lengur byggt á neinum rökum, öllu heldur fyrirsláttur, líkastur skurðgoðadýrkun, til að varpa hulu á þann félagslega og sögulega raunveruleika sem skýra hvernig þessar þjóðir urðu til.
Auðvitað er það ofar skilningi margra okkar að sjá hvernig, að gefnum sögulegum bakgrunni sínum, núverandi markaðsfyrirkomulag getur viðhaldist, jafnvel til skemmri tíma litið. En það er hluti annarrar umræðu - um hvort þetta "frjálsa markaðskerfi" sé yfirleitt til, eða hvort við séum í rauninni að eiga við ýmis form haftastefnu og óbeinnar og falinnar stjórnunar, þar sem þeir sem halda um stjórnvölinn gefi lausan tauminn þar sem þeir finna sig vera við stjórn, en halda fastar þar sem þeim finnst það ekki vera. Ef þetta er svo, mun hvert nýtt loforð um framfarir, í raun einskorðast við sprengiþróun og útbreiðslu vísinda og tækni, sem er með öllu óháð einhverju svokölluðu sjálfgengi efnahagslögmála.


2. Möguleikinn á betri heimi - úr Bréf til vina minna eftir Silo


2. Möguleikinn á betri heimi.
Margskonar hagfræðileg meðöl hafa verið reynd, með ýmsum niðurstöðum, til þess að lagfæra fyrrnefnd vandamál. Í dag hneigjast menn til að beita kerfi þar sem hin svokölluðu "markaðslögmál" stýra sjálfvirkt þróun þjóðfélagsins, og sneiða hjá þeim efnahagslegu hörmungum sem fyrri tilraunir í stýrðum hagkerfum höfðu í för með sér. Samkvæmt þessu fyrirkomulagi munu stríð, ofbeldi, kúgun, misrétti, fátækt og heimska smám saman heyra sögunni til án sársaukafullra aukaverkana. Lönd munu renna saman í svæðamarkaði, þar til að lokum upp er risið alheimsþjóðfélag, án múra af nokkru tagi. Við erum fullvissuð um, að á þennan hátt, rétt eins og lífskjör fátækari hluta þróaðri svæða muni fara batnandi muni líka hin lítt þróaðri svæði öðlast ávinninga þessarar þróunar.
Meirihluti fólks mun aðlagast þessu nýja fyrirkomulagi, sem hæfir tækni- og kaupsýslumenn munu koma á laggirnar. Ef, engu að síður, eitthvað bregst, mun það sannarlega ekki vera vegna þess að eitthvað sé athugavert við hin óskeikulu "efnahagslegu náttúrulögmál", heldur einungis vegna lítilla hæfileika einstakra sérfræðinga - sem, eins og gerist í fyrirtækjum, mun verða skipt um eftir því sem þurfa þykir. Samtímis mun almenningur í þessu "frjálsa" þjóðfélagi kjósa lýðræðislega milli valmöguleika, auðvitað svo fremi sem val þeirra liggur innan þessa sama kerfis.


1. Núverandi aðstæður - úr Bréf til vina minna eftir Silo

1. Núverandi aðstæður.
Frá upphafi sögu sinnar hefur mannkynið þróast til þess að öðlast betra líf. Þrátt fyrir allar framfarirnar er völdum, ásamt efnahagslegum og tæknilegum yfirburðum, beitt til að drepa, mergsjúga og undiroka fólk á stórum svæðum jarðarinnar. Að ekki sé minnst á hvernig framtíð komandi kynslóða er eyðilögð og lífi á plánetunni almennt er stefnt í voða. Lítið hlutfall mannkyns hefur mikið ríkidæmi á meðan mikinn meirihluta skortir jafnvel brýnustu nauðsynjar. Þó að á vissum stöðum séu næg störf sem eru launin við hæfi, er ástandið hörmulegt á mörgum öðrum. Allsstaðar ganga fátækustu hlutar þjóðfélagsins undir hörmungar á degi hverjum, bara til þess að svelta ekki í hel.
Í dag og eingöngu fyrir þá staðreynd að hún fæddist inn í félagslegt umhverfi, ætti hver manneskja að geta fætt sig á viðunandi hátt, hafa aðgang að heilbrigðiskerfi, húsnæði, menntun, klæði og þjónustu. Og þegar fólk kemst á efri ár, þarf það að geta tryggt framtíð sína til æviloka. Fólk hefur allan rétt á að þrá þessa hluti fyrir sjálft sig, og það á allan rétt á að vilja betra líf fyrir börn sín. En í dag hafa jafnvel þessar grundvallarþrár ekki ræst fyrir þúsundir milljóna manna.

Bréf til vina minna - eftir Silo upphafsmann Húmanistahreyfingarinnar

Um langa hríð hefur þessi bloggsíða mín ekki verið virk sem slík en nú mun ég virkja hana og nýta til að kynna efni sem gæti komið að gagni við að skapa betra samfélag á Íslandi sem og annarsstaðar - mennskt samfélag. Aðallega mun verða um að ræða efni eftir upphafsmann Húmanistahreyfingarinnar, Silo - Mario Luis Rodrigues Cobos. http://en.wikipedia.org/wiki/Mario_Luis_Rodr%C3%ADguez_Cobos
http://silo.net/en/home
Fyrsta ritið sem birtisnú á þessari bloggsíðu er BRÉF TIL VINA MINNA sem kom fyrst út á spænsku árið 1994 en var útgefið á íslensku af Hverfisfélagi húmanista í vesturbæ Reykjavíkur í maí 1998.
Umrædd bréf eru tíu talsins og mun ég birta þau hér á síðunni kafla fyrir kafla.

Fyrsta bréf til vina minna
21. febrúar 1991

Kæru vinir,
Um nokkurn tíma hafa mér borist bréf víðsvegar að úr heiminum, þar sem ég er beðinn um að skýra betur eða útfæra nánar, ýmis efni sem koma fyrir í bókum mínum. Oftast er ég beðinn um að útskýra áþreifanleg mál, svo sem ofbeldi, stjórnmál, hagfræði, umhverfismál og félagsleg tengsl sem og tengsl milli einstaklinga. Eins og sjá má eru hugðarefni fólks mörg og af ýmsum toga og því ljóst að sérfræðinga á þessum sviðum þyrfti til að svara, sem ég er auðvitað ekki. Samt get ég vonandi í stuttu máli, að svo miklu leyti sem ég get án þess að endurtaka það sem ég hef skrifað annarsstaðar, lýst í meginatriðum þeim almennu aðstæðum sem við búum við í dag og helstu straumum sem nú eru að skjóta upp kollinum.
Á öðrum tímum hefur ákveðin hugmynd um "menningarsjúkdóm" verið notuð sem hinn rauði þráður lýsingar af þessu tagi. Hér mun ég þess í stað einblína á hinar öru breytingar sem nú eiga sér stað, jafnt á hagkerfum ýmissa landa sem siðvenjum, á hugmyndakerfum jafnt sem gildismati. Með þessu vil ég reyna að finna rætur þessa sérstaka stefnuleysis sem í dag virðist vera að kæfa bæði einstaklinga og heilar þjóðir.
Áður en ég tek til við þetta efni vil ég gera tvær athugasemdir. Hin fyrri varðar heiminn sem er horfinn - einhverjum gæti fundist það efni litið með nokkrum söknuði í þessu bréfi. Varðandi þetta atriði vil ég segja að við sem trúum á framþróun mannsins erum hreint ekki niðurdregin vegna þeirra breytinga sem við sjáum. Þvert á móti, myndum við vilja hraða atburðarásinni enn frekar, samtímis því sem við reynum betur og betur að aðlaga okkur þessum nýju tímum.
Seinna atriðið varðar stíl þessa bréfs - einhverjum gæti fundist við einfalda um of mál þeirra sem við gagnrýnum, með því að setja þessi efni fram á svo "frumstæðan" hátt sem raun ber vitni. Þeir sem við gagnrýnum setja hlutina hreint ekki fram á þennan hátt. Hvað varðar tjáningarform sem þessir formælendur hins "Nýja Heimsskipulags" gætu kosið, vildi ég einungis gefa eftirfarandi skýringu. Þegar minnst er á þetta fólk leita sífellt á huga minn kaflar úr tveimur mjög ólíkum bókmenntaverkum, 1984 eftir George Orwell og Veröld ný og góð eftir Aldous Huxley. Báðir þessir óvenjulegu rithöfundar sáu fyrir sér framtíðarheim, þar sem, annaðhvort með ofbeldisaðferðum eða áróðri, mannveran var að lokum undirokuð og gerð að vélmenni. En ég trúi að þeir hafi báðir, kannski undir áhrifum frá svartsýni síns tíma, sem ég ætla ekki að reyna að túlka hér, ætlað "þeim vondu" of mikla skynsemi í bókum sínum, og "þeim góðu" of mikla heimsku.
Í dag eru "hinir slæmu" mjög gráðugt fólk, haldið mörgum vandamálum, en í öllum tilvikum algerlega ófært um að beina sögulegri framvindu í góðan farveg, framvindu sem greinilega lætur sig engu skipta vilja þeirra né getu til skipulagningar. Þetta fólk, sem leggur sig lítt fram, hefur síðan tæknimenn í þjónustu sinni sem hafa einungis hlutalausnir og sorglega ófullnægjandi úrræði. Því vil ég biðja ykkur um að taka ekki of alvarlega þær fáu málsgreinar, þar sem ég hef skemmt mér við að leggja þeim orð í munn er þeir segja ekki í raun, þó ásetningur þeirra beinist í þá átt sem liggur í orðunum. Ég held að við ættum að skoða þessa hluti án þeirrar alvörugefni sem er svo einkennandi fyrir þetta deyjandi tímabil og þess í stað fjalla um þá með kímni sem virðir ekki neitt, líkt og finnst í bréfum sem fara á milli góðra vina.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband