12.8.2012 | 17:18
7. Hin mennska breyting - úr Bréf til vina minna eftir Silo
7. Hin mennska breyting.
Heimurinn er að breytast mjög hratt og margt það, sem fyrir skömmu var trúað blint á, getur ekki staðist nú. Aukinn hraði atburða hefur í för með sér óstöðugleika og upplausn í öllum þjóðfélögum, hvort sem þau eru rík eða snauð. Þegar slíkar breytingar á kringumstæðum eiga sér stað, þá hætta jafnt hin hefðbundnu stjórnvöld og þjónar þeirra "mótarar almenningsálitsins", sem og hinir gömlu baráttumenn að vera viðmiðun fyrir fólk.
Engu að síður er að vakna til lífsins nýr næmleiki sem á við hinn nýja tíma. Þetta er næmleiki sem meðtekur heiminn sem eina heild og er meðvitaður um að vandamál fólks á sérhverjum stað munu á endanum gera vart við sig á öðrum, jafnvel þó mikil fjarlægð sé á milli þeirra. Samskiptin, tilfærsla auðs og hinir hröðu flutningar stórra hópa manna frá einum punkti til annars, allt þetta sýnir hvernig ferli heimsins í eina heild fer vaxandi.
Einnig eru að birtast ný viðhorf til aðgerða þegar ljóst er hve mörg vandamál eru heildræn. Það er greinilegt að starf þeirra sem vilja betri heim ber árangur ef það er látið vaxa frá því umhverfi þar sem hver og einn hefur einhver áhrif. Þetta er frábrugðið öðrum tímum þar sem hulið var með innantómum frösum hvernig leitað var eftir ytri viðurkenningu. Í dag er byrjað að meta auðmjúka og einlæga vinnu, þar sem ekki er reynt að blása út eigin persónu heldur breyta sjálfum sér og hjálpa til þess að það gerist í nánasta umhverfi fjölskyldu, vinnu og tengsla.
Þeim sem raunverulega þykir vænt um fólk vanvirða ekki slíka vinnu, þó hún sé ekki unnin með miklum fyrirgangi. Á hinn bóginn er þetta óskiljanlegt fyrir sérhvern tækfærissinna, sem mótaðist í hinu gamla landslagi leiðtoga og fjölda, í landslagi þar sem hann lærði að nota aðra til að skjóta sér á tind þjóðfélagsins.
Þegar einhver sannreynir að kleyfhugaháttur einstaklingshyggjunnar hefur enga útgönguleið og segir öllum þeim sem hann þekkir opinskátt frá því að það er þetta sem honum finnst og hann gerir þetta án hinnar fáránlegu hræðslu við að vera misskilinn, þegar hann nálgast aðra, þegar hann sýnir áhuga á hverjum og einum en ekki á nafnlausum fjölda, þegar hann byrjar að skiptast á skoðunum og fer að vinna með öðrum, þegar hann sér ljóslega þörfina á að margfalda þetta starf endurtengingar í þjóðfélagsvef sem aðrir hafa eyðilagt, þegar hann finnur að jafnvel "smávægilegasta" manneskjan hefur meiri mennsk gæði en einhver sálarleysingi sem hefur verið settur á tind augnabliksins... Þegar allt þetta gerist hjá honum er það vegna þess að innra með honum byrjar að tala að nýju Tilgangurinn sem hefur hreyft þjóðirnar þegar þær voru í mestri þróun. Þessi Tilgangur sem svo oft hefur verið rangfærður og svo oft gleymdur en hefur ávallt fundist aftur þegar sagan hefur breytt gangi sínum.
Ekki er einungis að sýna sig nýr næmleiki, ný stefna og framkvæmd aðgerða heldur jafnframt nýtt siðferðisviðhorf og nð taktísk staða gagnvart lífinu. Ef einhver ýtti mér til að skýra nákvæmar það sem minnst hefur verið á fyrr, myndi ég segja, jafnvel þó þetta hafi verið endurtekið í þrjár þúsundir ára, að fólk finni nú á nýjan hátt fyrir nauðsyn þess og hinum siðferðilega sannleik að koma fram við aðra eins og maður vill að komið sé fram við sig. Ég myndi bæta við að í dag sé leitast við að framkvæma nokkurskonar hegðunarlögmál:
1. Ákveðið samræmi, reyna að skipuleggja hina mikilvægu þætti í lífinu, sinna þeim öllum og forðast að sumir þeirra fari fram úr og aðrir aftur úr um of.
2. Ákveðin vaxandi aðlögun, sem vinnur í þágu framþróunar (ekki bara hins líðandi augnabliks) og skeyta lítið um hin mismunandi form neikvæðrar þróunar.
3. Ákveðið tækifæri, hörfa frammi fyrir miklum krafti (ekki frammi fyrir öllum óðægindum) og sækja fram þegar úr honum dregur.
4. Ákveðin samheldni, safna saman gjörðum sem gefa tilfinningu um einingu, vera sáttur við sjálfan sig og hafna þeim sem valda mótsögnum og sem eru skráðar sem ósamræmi milli þess sem maður hugsar, finnur og gerir.
Ég held að ekki sé nauðsynlegt að útskýra hvers vegna ég segi að "fundið sé fyrir nauðsyn þess og hinum siðferðilega sannleik að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við sig", frammi fyrir þeim mótmælum að hegðun sé ekki á þennan hátt í dag. Né held ég að við ættum að vera með lengri útskýringar á því hvað 'framþróun' er eða 'vaxandi aðlögun' og ekki bara endanleg aðlögun. Hvað varðar að að hörfa eða sækja fram gagnvart miklum eða minnkandi krafti, myndum við án efa verða að treysta á nákvæmar viðmiðanir sem við höfum ekki minnst á. Að lokum, þetta með að safna upp einingargjörðum frammi fyrir mótsagnakenndum kringumstæðum sem við búum við og upplifum dag hvern eða á gagnstæðan hátt að hafna mótsögninni, virðist erfitt hvernig sem á það er litið.
Það er satt, en ef við förum yfir það sem hefur verið sagt hér að ofan, myndum við sjá að við höfum minnst á alla þessa hluti í því samhengi að vera ákveðin hegðun, sem er að verða sterk þrá í dag, allt öðruvísi en sú á öðrum tímum. Að lokum.
Ég hef reynt að setja fram nokkur sérstök einkenni sem eru að birtast, sem á við nýjan næmleik, nýja gerð samskipta milli manna og nýja gerð persónulegrar hegðunar sem að mér virðist hefur gert meira en að vera einföld gagnrýni á ástandið. Við vitum að gagnrýni er alltaf nauðsynleg, en það sem er enn nauðsynlegra er að gera sjálf eitthvað öðruvísi en það sem við erum að gagnrýna.
Með þessu sendi ég ykkur mínar bestu kveðjur
Silo
12.8.2012 | 17:17
6. Saga fyrir þá sem vilja verða framkvæmdastjórar - úr Bréf til vina minna eftir Silo
6. Saga fyrir þá sem vilja verða framkvæmdastjórar
"Samfélagið sem er að skapast mun loksins færa okkur allsnægtir. Auk stórkostlegra efnislegra framfara mun mannkynið verða frjálst. Ekki mun lengur vera þörf á einhverri gamaldags 'samstöðu', þeirri fátæktardellu, því þegar hér er komið sögu eru flestir á einu máli um að peningar eða eitthvað í þeim dúr geti leyst nærri öll vandamál. Við munum því beina öllum kröftum okkar, hugsun og draumum í þá átt. Með peningum má kaupa sér góðan málsverð, fallegt heimili, ferðalög, afþreyingu, tæknileg leiktæki og fólk sem gerir það sem óskað er. Loksins verður hagkvæm ást, hagkvæm list og hagkvæm sálfræði til að leysa þau vandamál sem eftir gætu verið. Jafnvel þau vandamál verða fljótlega leyst með nýjum uppgötvunum í taugaefnafræði og erfðaverkfræði.
Í þessu þjóðfélagi allsnægtanna munum við sjá sjálfsmorðstíðni, áfengissýki, vímuefnaneyslu, glæpi, og aðra þætti sem truflað gætu svefn borgaranna, deyja smám saman út - eins og við erum fullvissuð um muni raunar gerast einhvern daginn mjög fljótlega í efnahagslega þróuðum samfélögum. Misrétti mun líka hverfa og samskipti allra munu aukast. Enginn mun lengur verða að velta sífellt fyrir sér þarflausum spurningum um tilgang lífsins, einmanaleika, veikindi, elli eða dauða, því með viðeigandi námskeiðum og lítilsháttar meðferð má setja loku fyrir slík viðbrögð sem ávallt hafa hamlað hagkvæmni og framleiðni samfélaga. Allir treysta öllum, því samkeppni í vinnu, námi og sambúð skapar þroskuð tengsl á milli manna.
Að lokum deyr hugmyndafræðin út og verður ekki lengur notuð til að heilaþvo fólk. Auðvitað hindrar enginn mótmæli eða óánægju neins vegna minniháttar málefna, ef notaðar eru viðeigandi tjáningarleiðir. Borgararnir mega koma saman (af heilbrigðisástæðum í litlum hópum) svo fremi sem þeir rugla ekki saman frelsi og taumleysi, og geta jafnvel tjáð sig utandyra (auðvitað með þeim skilyrðum að þeir trufli ekki aðra með hávaða, mengun eða kynningarefni sem gæti spillt útliti sveitarfélagsins, eða hvað sem það verður kallað í framtíðinni).
En best af öllu verður samt þegar lögregluvakt verður ekki lengur nauðsynleg. Í stað hennar tekur hver borgari ábyrgð á því vernda hina gegn lygum hugmyndafræðilegra hryðjuverkamanna. Borgararnir verða svo þjóðfélagslega ábyrgir að ef vart yrði við hugmyndafræðilegar lygar hryðjuverkamanna gengju þeir beint til fjölmiðla svo hægt væri að vara aðra borgara við hættunni. Borgararnir munu skrifa snjallar ritgerðir sem verða samstundis gefnar út. Þeir munu setja á laggirnar ráðstefnur þar sem fágað skoðanamyndandi fólk mun útskýra fyrir skammsýnu fólki að ennþá væri það í greipum hinna dimmu afla efnahagsmiðstýringar, valdboðsstefnu, andlýðræðis og trúarofstækis.
Ekki verður einu sinni nauðsynlegt að eltast við þá sem raska ró borgaranna, því fjölmiðlun verður svo hagkvæm, að enginn mun vilja koma nálægt þeim vegna hættunnar á að mengast af hugmyndafræði þeirra.
Í verstu tilfellunum verða þeir "endurforritaðir" á hagkvæman hátt. Þeir munu þakka opinberlega fyrir að vera komnir í þjóðfélagið á ný og lofa kosti þess að þekkja á ný takmörk frelsisins.
Hinir dugmiklu verjendur borgaranna eru venjulegt fólk sem kann best við sig í nafnleysi fjöldans, þegar þeir eru ekki uppteknir við að sinna skyldum sínum, þeir verða þekktir í þjóðfélaginu fyrir siðgæði sitt, gefa eiginhandaráritanir og eins og eðlilegt er njóta þeir ríflegs endurgjalds.
Fyrirtækið verður að stórri fjölskyldu sem ýtir undir hæfni, mannleg samskipti og tómstundaiðju. Vélmenni hafa rutt líkamlegri vinnu úr vegi. Að vinna fyrir Fyrirtækið heima hjá sér verður hin sanna persónulega fullnæging einstaklingsins.
Þannig mun samfélagið ekki hafa þörf fyrir önnur samtök en þau sem fyrirfinnast i Fyrirtækinu. Maðurinn, sem ávallt hefur barist fyrir vellíðan sinni, hefur að lokum skapað himnaríki á jörðu. Þar sem hann ferðast milli pláneta hefur hann fundið hamingjuna. Þar verður hann samkeppnishæft ungmenni, hann verður tælandi, ágjarn, sigursæll og raunsær, umfram allt raunsær ...stjórnandi Fyrirtækisins.
12.8.2012 | 17:16
5. Breytingar og tengsl fólks - úr Bréf til vina minna eftir Silo
5. Breytingar og tengsl fólks
Sameining markaða í stærri svæði, sem og kröfur um sjálfstæði héraða og þjóðarbrota ýta undir upplausn þjóðríkisins. Fólksfjölgunarsprengingin í fátækari heimshlutum er að rífa á saumunum allar tilraunir til þess að stjórna fólksflutningum. Stórfjölskylda sveitanna er að brotna niður, og hvetur yngri kynslóðina til ofsetinna borganna. Borgarfjölskylda iðnaðar- og síðiðnaðartímans hefur skroppið saman í algjört lágmark, meðan risaborgirnar verða samtímis að gleypa óheyrirlegan straum fólks sem mótaðist í óskyldu landslagi menningar. Efnahagskreppur og umbreytingar á framleiðsluaðferðum skapa skilyrði fyrir kynþáttahatur og annarskonar mismunun að blossa upp að nýju.
Mitt í öllu þessu leiðir sívaxandi hraði tæknibreytinga og fjöldaframleiðslu til þess að vörur verða úr sér gegnar næstum áður en þær ná til neytenda. Þessi stöðuga endurnýjun hluta á sér samsvörun í þeim óstöðugleika og þeirri aflögun sem svo ljóslega má sjá í mannlegum tengslum í dag. Þegar hér er komið sögu hefur hin hefðbundna 'samstaða', arftaki þess sem einhverntíma var kallað 'bræðralag', misst alla þýðingu. Félagar okkar í vinnunni, í skólanum, í íþróttunum... jafnvel gamlir vinir taka nú á sig einkenni keppinauta. Kærustupör berjast um yfirráð, báðir aðilar reikna út í upphafi sambandsins, hvort borgi sig frekar að vera saman eða búa aðskilin.
Aldrei fyrr hefur heimurinn verið jafn samtengdur, engu að síður líða einstaklingar hvern dag meir af þjakandi tengslaleysi. Aldrei fyrr hafa borgarmiðstöðvarnar verið svo fjölmennar, þrátt fyrir það talar fólk um "einmanaleika" sinn. Aldrei hefur fólk þarfnast mannlegrar hlýju jafn mikið og nú, en að reyna að nálgast annan í anda hjálpsemi og vinsemdar vekur aðeins grunsemdir.
Svona hefur fólkið okkar lánlausa verið yfirgefið, í þessari klípu og megnri óhamingju er hverjum einangruðum einstaklingi komið til að trúa að hann eða hún hafi einhverju mikilvægu að tapa - loftkenndu "einhverju" sem allur afgangur mannkyns líti ágirndaraugum! Undir þessum kringumstæðum er hægt að segja fólki eftirfarandi sögu, eins og verið væri að tala um óyggjandi raunveruleika...
12.8.2012 | 17:15
4. Framtíðartilraunir - úr Bréf til vina minna eftir Silo
4. Framtíðartilraunir
Í dag, eins og raunin hefur verið í gegnum söguna, mun ríkjandi fyrirkomulagi einfaldlega verða varpað fyrir róða hvenær sem það reynist nauðsynlegt, fyrir annað sem á að "bæta úr" annmörkum hins fyrrnefnda. En á meðan mun auðurinn stöðugt vaxa í höndum æ valdameiri minnihluta.
Samtímis er ljóst að hvorki framþróunin né hinar lögmætu vonir fólks munu líða undir lok. Því er það að við munum brátt sjá síðustu barnalegu fullyrðingarnar um að hugmyndafræði, árekstrar, stríð efnahagskreppur og félagslegt umrót heyri senn sögunni til. Og þar sem enginn blettur jarðarinnar er ótengdur öðrum hlutum, kemur mjög fljótt að því að staðbundnar lausnir, jafnt sem staðbundin átök, ná til alls heimsins. Eitt er að auki ljóst: Það sem hingað til hefur ráðið ríkjum mun ekki lengur geta viðhaldist - hvorki núverandi fyrirkomulag yfirdrottnunar, né baráttuaðferðirnar gegn því.
12.8.2012 | 17:14
3. Þjóðfélagsþróunin - úr Bréf til vina minna eftir Silo
3. Þjóðfélagsþróunin
Með hliðsjón af númerandi kringumstæðum, er e.t.v. einhvers virði að velta stuttlega fyrir sér þessum kosti, sem á líðandi stundu er haldið fram sem lyklinum að betri heimi. Að sönnu hafa þó nokkrar efnahagslegar tilraunir verið gerðar, með fremur ósannfærandi niðurstöðum. Þrátt fyrir þetta er okkur sagt að þessi síðasta tilraun beri í sér einu lausnina á grundvallarvanda okkar. Engu að síður eru nokkrar hliðar þessarar nýju tillögu sem er ofar skilningi einhverra okkar.
Í fyrsta lagi er spurningin um lögmál efnahagslífsins. Það gæti virkað sennilega að, eins og í náttúrunni sé til ákveðið vélgengi sem sjálfkrafa stýri framþróun þjóðfélagsins, sé því leyft að ganga óhindrað. Hvað sem því líður, finnst okkur erfitt að kyngja þeirri röksemdafærslu að eitthvert mannlegt ferli, og sér í lagi efnahagsferlið lúti sömu lögmálum og náttúruleg fyrirbæri. Þvert á móti, trúum við að mannlegt atferli sé ekki-náttúrulegt, að það einkennist þess í stað af ætlun, sé félags- og sögulegt. Þessi einstaklega mannlegu fyrirbæri birtast ekki í náttúrunni almennt, eða hjá öðrum dýrategundum. Þar af leiðandi, þar sem efnahagsleg ferli endurspegla mannlega ætlun og áhuga, sjáum við í ljósi atburða ekkert sem styður þá trú að þeir sem stýri vegfarnaði mannkyns láti sig varða að yfirstíga erfiðleika annarra sem njóta ekki sömu forréttinda og þeir sjálfir.
Í öðru lagi virðist sú fullyrðing að þjóðfélögin hafi þróast þrátt fyrir hið mikla bil sem hefur alltaf skilið ríkidæmi þeirra sem "áttu" frá hinum sem "áttu ekki", langt frá því að vera sannfærandi. Sagan sýnir að þjóðfélögin þróuðust þegar fólkið krafðist réttar síns frá ríkjandi valdhöfum og að félagsleg þróun hefur svo sannarlega ekki stafað af því auður sem einn geiri þjóðfélagsins hafði safnað saman "seytlaði niður" á sjálfvirkan máta.
Í þriðja lagi virðist full langt gengið að halda fram sem fyrirmyndum ákveðnum þjóðfélögum, þar sem þessa svokallaða frjálsa markaðkerfis er beitt, og náðst hafa góð lífskjör. Þessi þjóðfélög hafa, þegar öllu er á botninn hvolft, staðið fyrir útbreiðslustríðum gegn öðrum þjóðfélögum. Þau hafa þröngvað nýlendustefnu og ný-nýlendustefnu uppá hin síðarnefndu. Þau hafa hlutað niður þjóðir og heilu álfurnar. Þau hafa með fulltingi ofbeldis og misréttis heimt skatta. Að lokum hafa þau fært sér í nyt ódýrt vinnuafl veikari efnahagskerfanna, meðan þau samtímis þröngvuðu óhagstæðum viðskiptakjörum uppá hin síðarnefndu. Einhverjir munu andmæla og segja að þetta háttalag sé einfaldlega það sem kallað er "hagstæðir samningar". Samt sem áður geta þeir ekki haldið þessu fram og staðhæfa síðan samtímis að efnahagsleg þróun þessara landa sem "standa framar" hafi átt sér stað óháð sérstökum tengslum við önnur lönd sem stóðu höllum fæti.
Í fjórða lagi er oft minnst á afrek í vísindum og tækni og það "frumkvæði" sem hinn frjálsi markaður" fóstri. En það er ljóst að vísinda- og tæknileg framþróun hófst þegar mannveran fann upp kylfur, vogarstangir, eldinn o.s.frv., og að þessi þróun hefur gengið sinn veg í ferli söglulegrar samsöfnunar, sem litlu hefur látið sig skipta sérstök efnahagsleg form eða einhverj markaðslögmál.
Ef á hinn bóginn þeir vilja meina að ríkari efnahagskerfin laði til sín stærstan hluta hæfileikafólksins, að þau hafi efni til að borga fyrir tæki og rannsóknir og að síðustu að þau geti látið í té meiri hvatningu í formi meiri umbununar, þá ætti líka að geta þess að þetta hefur alltaf verið svo, allt frá því í fornöld, og einskorðast hvorki við, né stafar af ákveðinni tegund efnahagskerfis. Hér hefur öllu frekar safnast saman á ákveðnum stað og á ákveðinni stundu - óháð því hvernig þetta ríkidæmi er til komið - ofgnótt auðlegðar.
Í fimmta lagi eimir enn eftir af þeim hugsunarhætti að skýra velferð hinna "þróaðri" þjóðfélaga sem ávöxt ákveðinna óáþreifanlegrara "gjafa" náttúrunnar - sérstakra hæfileika, borgaralegum dyggðum, dugnaði, skipulagi og þess háttar. Þetta er, samt sem áður, ekki lengur byggt á neinum rökum, öllu heldur fyrirsláttur, líkastur skurðgoðadýrkun, til að varpa hulu á þann félagslega og sögulega raunveruleika sem skýra hvernig þessar þjóðir urðu til.
Auðvitað er það ofar skilningi margra okkar að sjá hvernig, að gefnum sögulegum bakgrunni sínum, núverandi markaðsfyrirkomulag getur viðhaldist, jafnvel til skemmri tíma litið. En það er hluti annarrar umræðu - um hvort þetta "frjálsa markaðskerfi" sé yfirleitt til, eða hvort við séum í rauninni að eiga við ýmis form haftastefnu og óbeinnar og falinnar stjórnunar, þar sem þeir sem halda um stjórnvölinn gefi lausan tauminn þar sem þeir finna sig vera við stjórn, en halda fastar þar sem þeim finnst það ekki vera. Ef þetta er svo, mun hvert nýtt loforð um framfarir, í raun einskorðast við sprengiþróun og útbreiðslu vísinda og tækni, sem er með öllu óháð einhverju svokölluðu sjálfgengi efnahagslögmála.
12.8.2012 | 17:13
2. Möguleikinn á betri heimi - úr Bréf til vina minna eftir Silo
2. Möguleikinn á betri heimi.
Margskonar hagfræðileg meðöl hafa verið reynd, með ýmsum niðurstöðum, til þess að lagfæra fyrrnefnd vandamál. Í dag hneigjast menn til að beita kerfi þar sem hin svokölluðu "markaðslögmál" stýra sjálfvirkt þróun þjóðfélagsins, og sneiða hjá þeim efnahagslegu hörmungum sem fyrri tilraunir í stýrðum hagkerfum höfðu í för með sér. Samkvæmt þessu fyrirkomulagi munu stríð, ofbeldi, kúgun, misrétti, fátækt og heimska smám saman heyra sögunni til án sársaukafullra aukaverkana. Lönd munu renna saman í svæðamarkaði, þar til að lokum upp er risið alheimsþjóðfélag, án múra af nokkru tagi. Við erum fullvissuð um, að á þennan hátt, rétt eins og lífskjör fátækari hluta þróaðri svæða muni fara batnandi muni líka hin lítt þróaðri svæði öðlast ávinninga þessarar þróunar.
Meirihluti fólks mun aðlagast þessu nýja fyrirkomulagi, sem hæfir tækni- og kaupsýslumenn munu koma á laggirnar. Ef, engu að síður, eitthvað bregst, mun það sannarlega ekki vera vegna þess að eitthvað sé athugavert við hin óskeikulu "efnahagslegu náttúrulögmál", heldur einungis vegna lítilla hæfileika einstakra sérfræðinga - sem, eins og gerist í fyrirtækjum, mun verða skipt um eftir því sem þurfa þykir. Samtímis mun almenningur í þessu "frjálsa" þjóðfélagi kjósa lýðræðislega milli valmöguleika, auðvitað svo fremi sem val þeirra liggur innan þessa sama kerfis.
12.8.2012 | 17:11
1. Núverandi aðstæður - úr Bréf til vina minna eftir Silo
Frá upphafi sögu sinnar hefur mannkynið þróast til þess að öðlast betra líf. Þrátt fyrir allar framfarirnar er völdum, ásamt efnahagslegum og tæknilegum yfirburðum, beitt til að drepa, mergsjúga og undiroka fólk á stórum svæðum jarðarinnar. Að ekki sé minnst á hvernig framtíð komandi kynslóða er eyðilögð og lífi á plánetunni almennt er stefnt í voða. Lítið hlutfall mannkyns hefur mikið ríkidæmi á meðan mikinn meirihluta skortir jafnvel brýnustu nauðsynjar. Þó að á vissum stöðum séu næg störf sem eru launin við hæfi, er ástandið hörmulegt á mörgum öðrum. Allsstaðar ganga fátækustu hlutar þjóðfélagsins undir hörmungar á degi hverjum, bara til þess að svelta ekki í hel.
Í dag og eingöngu fyrir þá staðreynd að hún fæddist inn í félagslegt umhverfi, ætti hver manneskja að geta fætt sig á viðunandi hátt, hafa aðgang að heilbrigðiskerfi, húsnæði, menntun, klæði og þjónustu. Og þegar fólk kemst á efri ár, þarf það að geta tryggt framtíð sína til æviloka. Fólk hefur allan rétt á að þrá þessa hluti fyrir sjálft sig, og það á allan rétt á að vilja betra líf fyrir börn sín. En í dag hafa jafnvel þessar grundvallarþrár ekki ræst fyrir þúsundir milljóna manna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2012 | 16:55
Bréf til vina minna - eftir Silo upphafsmann Húmanistahreyfingarinnar
Um langa hríð hefur þessi bloggsíða mín ekki verið virk sem slík en nú mun ég virkja hana og nýta til að kynna efni sem gæti komið að gagni við að skapa betra samfélag á Íslandi sem og annarsstaðar - mennskt samfélag. Aðallega mun verða um að ræða efni eftir upphafsmann Húmanistahreyfingarinnar, Silo - Mario Luis Rodrigues Cobos. http://en.wikipedia.org/wiki/Mario_Luis_Rodr%C3%ADguez_Cobos
http://silo.net/en/home
Fyrsta ritið sem birtisnú á þessari bloggsíðu er BRÉF TIL VINA MINNA sem kom fyrst út á spænsku árið 1994 en var útgefið á íslensku af Hverfisfélagi húmanista í vesturbæ Reykjavíkur í maí 1998.
Umrædd bréf eru tíu talsins og mun ég birta þau hér á síðunni kafla fyrir kafla.
Fyrsta bréf til vina minna
21. febrúar 1991
Kæru vinir,
Um nokkurn tíma hafa mér borist bréf víðsvegar að úr heiminum, þar sem ég er beðinn um að skýra betur eða útfæra nánar, ýmis efni sem koma fyrir í bókum mínum. Oftast er ég beðinn um að útskýra áþreifanleg mál, svo sem ofbeldi, stjórnmál, hagfræði, umhverfismál og félagsleg tengsl sem og tengsl milli einstaklinga. Eins og sjá má eru hugðarefni fólks mörg og af ýmsum toga og því ljóst að sérfræðinga á þessum sviðum þyrfti til að svara, sem ég er auðvitað ekki. Samt get ég vonandi í stuttu máli, að svo miklu leyti sem ég get án þess að endurtaka það sem ég hef skrifað annarsstaðar, lýst í meginatriðum þeim almennu aðstæðum sem við búum við í dag og helstu straumum sem nú eru að skjóta upp kollinum.
Á öðrum tímum hefur ákveðin hugmynd um "menningarsjúkdóm" verið notuð sem hinn rauði þráður lýsingar af þessu tagi. Hér mun ég þess í stað einblína á hinar öru breytingar sem nú eiga sér stað, jafnt á hagkerfum ýmissa landa sem siðvenjum, á hugmyndakerfum jafnt sem gildismati. Með þessu vil ég reyna að finna rætur þessa sérstaka stefnuleysis sem í dag virðist vera að kæfa bæði einstaklinga og heilar þjóðir.
Áður en ég tek til við þetta efni vil ég gera tvær athugasemdir. Hin fyrri varðar heiminn sem er horfinn - einhverjum gæti fundist það efni litið með nokkrum söknuði í þessu bréfi. Varðandi þetta atriði vil ég segja að við sem trúum á framþróun mannsins erum hreint ekki niðurdregin vegna þeirra breytinga sem við sjáum. Þvert á móti, myndum við vilja hraða atburðarásinni enn frekar, samtímis því sem við reynum betur og betur að aðlaga okkur þessum nýju tímum.
Seinna atriðið varðar stíl þessa bréfs - einhverjum gæti fundist við einfalda um of mál þeirra sem við gagnrýnum, með því að setja þessi efni fram á svo "frumstæðan" hátt sem raun ber vitni. Þeir sem við gagnrýnum setja hlutina hreint ekki fram á þennan hátt. Hvað varðar tjáningarform sem þessir formælendur hins "Nýja Heimsskipulags" gætu kosið, vildi ég einungis gefa eftirfarandi skýringu. Þegar minnst er á þetta fólk leita sífellt á huga minn kaflar úr tveimur mjög ólíkum bókmenntaverkum, 1984 eftir George Orwell og Veröld ný og góð eftir Aldous Huxley. Báðir þessir óvenjulegu rithöfundar sáu fyrir sér framtíðarheim, þar sem, annaðhvort með ofbeldisaðferðum eða áróðri, mannveran var að lokum undirokuð og gerð að vélmenni. En ég trúi að þeir hafi báðir, kannski undir áhrifum frá svartsýni síns tíma, sem ég ætla ekki að reyna að túlka hér, ætlað "þeim vondu" of mikla skynsemi í bókum sínum, og "þeim góðu" of mikla heimsku.
Í dag eru "hinir slæmu" mjög gráðugt fólk, haldið mörgum vandamálum, en í öllum tilvikum algerlega ófært um að beina sögulegri framvindu í góðan farveg, framvindu sem greinilega lætur sig engu skipta vilja þeirra né getu til skipulagningar. Þetta fólk, sem leggur sig lítt fram, hefur síðan tæknimenn í þjónustu sinni sem hafa einungis hlutalausnir og sorglega ófullnægjandi úrræði. Því vil ég biðja ykkur um að taka ekki of alvarlega þær fáu málsgreinar, þar sem ég hef skemmt mér við að leggja þeim orð í munn er þeir segja ekki í raun, þó ásetningur þeirra beinist í þá átt sem liggur í orðunum. Ég held að við ættum að skoða þessa hluti án þeirrar alvörugefni sem er svo einkennandi fyrir þetta deyjandi tímabil og þess í stað fjalla um þá með kímni sem virðir ekki neitt, líkt og finnst í bréfum sem fara á milli góðra vina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)