Stefnuskjal Húmanista frh. - III. AFSTAÐA HÚMANISTA

Aðgerðir húmanista byggjast ekki á óraunverulegum kenningum um guð, náttúruna, samfélagið eða mannkynssöguna. Þær spretta af lífsnauðsynjum, að forðast sársaukann og leitast við að öðlast vellíðan. Við þessar þarfir bætast svo væntingar manna um framtíðina sem ráðast af reynslu fortíðarinnar og þeim ásetningi að bæta ríkjandi ástand. Mannleg reynsla er ekki aðeins afleiðing náttúruvals eða samsafnaðra náttúrulegra og eðlisfræðilegra staðreynda, lögmáls er gildir um allar dýrategundir, heldur einnig og jafnframt félagsleg og einstaklingsbundin reynsla, sem beinist að því að yfirstíga stundarsársauka og koma í veg fyrir framtíðarþjáningu. Mannlegt starf, sem eflist í félagsvinnu, breytist frá kynslóð til kynslóðar í stöðugri baráttu við að bæta náttúruleg skilyrði, jafnvel líkamann sjálfan. Því er rétt að skilgreina manninn sem sögulega veru gædda félagslegri hæfni, sem er fær um að breyta heiminum og jafnvel eigin eðli. Í hvert skipti sem einstaklingur eða hópur manna beitir aðra þvingunum og ofbeldi tefur það framgang sögunnar og gerir fórnarlömbin að „náttúrulegum“ hlutum. Náttúran hefur engan ásetning. Þegar við heftum frelsi og áform einhvers er sá hinn sami gerður að „náttúrulegum“ hlut, nytjahlut.

Framvinda mannlegrar þróunar verður, þótt hægt gangi, að umbreyta náttúrunni og samfélaginu og gera útlægt ofbeldi það og ánauð sem sumir menn beita aðra. Þegar þetta gerist munum við stíga skrefið frá forsögu mannkyns til raunverulegrar sögu þess. Þangað til getum við ekki tekið mið af neinu öðru né æðra gildi en manninum sjálfum, fullnægðum og frjálsum. Þessvegna gera húmanistar að kjörorði sínu: „Ekkert ofar manninum og enginn maður neðar öðrum“. Ef við teljum guð, eða ríkið, peninga eða hvaðeina annað, vera það sem við virðum mest, þá er maðurinn settur skör lægra og þar með skapast skilyrði fyrir því að honum sé stjórnað eða jafnvel fórnað. Húmanistar gera sér ljósa grein fyrir þessu. Húmanistar gera verið hvort heldur guðleysingjar eða trúhneigðir menn. Heimssýn þeirra og gjörðir eru þó ekki reistar á trúariðkun þeirra eða trúleysi. Þeir taka mið af manninum og nærtækustu þörfum hans. Öðlist þeir trú á að í baráttu sinni fyrir betri heimi hafi þeir uppgötvað einhvern þann tilgang er þoki manninum eitthvað áleiðis á braut framfara og aukins þroska, þá beita þeir trú þessari eða uppgötvun í þágu alls mannkyns.

Húmanistar telja að grundvallarviðfangsefnið sé þetta: að vita hvort maður vill lifa lífinu og að ákveða við hvaða skilyrði.

Húmanistum býður við hvers konar ofbeldi, hvort heldur líkamlegu, efnahagslegu, trúarlegu eða hugmyndafræðilegu ofbeldi, ellegar misrétti kynja eða kynþátta. Húmanistar hafna hverskonar mismunun, dulinni eða yfirlýstri.

Húmanistar hneigjast ekki til ofbeldis. Þeir eru hins vegar fjarri því að vera hugleysingjar, né eru þeir hræddir við að bjóða ofbeldinu birginn, vegna þess að slík gjörð felur í sér tilgang. Húmanistar vilja lifa í nánum tengslum við samfélagið. Þeir setja fram raunhæfa kosti og eru þess vegna sjálfum sér samkvæmir.

Þannig eru skýr mörk milli húmanisma og andhúmanisma. Húmanisminn metur vinnuna ofar veldi fjármagnsins, raunverulegt lýðræði ofar lýðræði í orði kveðnu, dreifingu valdsins ofar miðstýringu, jöfnuð ofar mismunun, frelsi ofar kúgun, tilgang lífsins ofar uppgjöf, samsekt og firringu.

Húmanisminn sækir styrk sinn í frelsi mannsins til að velja og siðfræðin, sem hann er reistur á, er hin eina raunhæfa á okkar tímum. Hann setur traust sitt á manninn og frjálsa ákvörðun hans og greinir á milli mistaka og varmennsku, þess sem veit ekki betur og svikarans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband